Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, furðar sig á því að fulltrúar stjórnarflokkanna telji sig hafa góðan tíma til að ráða ráðum sínum um framtíð stjórnarsamstarfsins.
Á morgun mun Katrín Jakobsdóttir biðjast lausnar úr embætti forsætisráðherra og verður landið því „forsætisráðherra-laust“, eins og Dagur orðar það í færslu á Facebook.
„Oftast er um að ræða að þetta sé í aðdraganda snemmbúinna kosninga (eða að stjórnin hafi misst meirihluta sinn á þingi) og situr þá ríkisstjórnin (iðulega óbreytt) sem starfsstjórn fram að kosningum, að beiðni forseta.“
Þá segir Dagur að í núverandi stöðu hafi Guðni Th. Jóhannesson forseti tvo valkosti. Setja nýjan forsætisráðherra í embætti sem nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi, eða biðja forsætisráðherra að sitja tímabundið þar til náðst hefur samstaða um annan forsætisráðherra og nýja ríkisstjórn.
„Landið getur einfaldlega ekki verið forsætisráðherralaust,“ segir í færslu Dags.
Hann efast ekki um að Guðni sé nú að ræða við helstu stjórnskipunarfræðinga landsins um stöðuna.
Dagur nefnir að stjórnarskráin veiti forseta vald til að rjúfa þing og boða til kosninga en hann telur ólíklegt að Guðni bregði á það ráð. Í tilkynningu á vef forsetaembættisins segir að Guðni hafi rætt við Ólaf Þ. Harðarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, og Viktor Orra Valgarðsson, nýdoktor við Southamptonháskóla á England, um ástandið í gær.
„Stjórnarmyndunarferli undir verkstjórn forseta væri hefðbundnasti framgangur mála ef ekki liggur fyrir niðurstaða milli flokkanna í ríkisstjórn eða Alþingi fyrir morgundaginn - og þá að forseti myndi kalla alla forystumenn flokkanna á þingi til sín hvern af öðrum til að heyra þeirra afstöðu til myndun meirihlutastjórnar eða boðun kosninga. Á meðan á því ferli stæði sæti Katrín Jakobsdóttir væntanlega sem forsætisráðherra í starfsstjórn - eða hvað? “ spyr Dagur.
Hann segir það illa gert ef stjórnarflokkarnir dragi nýja stjórnamyndun á langinn vegna valdatogs.
„Ég myndi segja að þeir hefðu sólarhringinn til að leysa úr þessu en ekki mikið meira.“