Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, segir mikilvægt að embætti forseta Íslands sé ekki flokkspólitískt og hafið yfir dægurþras. Þó þurfi forseti að vera fær um að taka erfiðar ákvarðanir og málskotsréttinn eigi einungis að nýta við sérstakar aðstæður.
Halla segir í samtali við mbl.is að hún hafi fengið hvatningu úr ólíkum áttum frá því í haust.
„Síðan hefur þetta komið í bylgjum sem hafa stækkað og ágerst. Það var núna um páskana sem ég tók endanlega ákvörðun. Ég er á leiðinni í dag að hitta afréttarfélaga mína, þ.e.a.s. gangnamannafélagið sem skoraði á mig og olli enn meiri hvatningu nú fyrir páskana, sem hefur orðið hluti af þeirri ákvörðun um að fara af stað í þetta ferðalag nú.“
Í kynningarefni leggur þú áherslu á samvinnu þjóðarinnar. Hvernig myndir þú nýta málskotsrétt forseta?
„Embætti forseta er almennt gríðarlega þýðingarmikið fyrir þjóðina. Það er mikilvægt að þetta embætti sé ekki flokkspólitískt og hafið yfir dægurþras. Embætti forseta Íslands er sameiningartákn þjóðarinnar. Heilt yfir tel ég mikilvægt að forseti blakti ekki eins og strá í vindi,“ segir Halla. Forseti þurfi að standa keikur við þjóðinni og geta tekið erfiðar ákvarðanir.
„Varðandi valdheimildir tel ég mjög mikilvægt að nota þær eingöngu afar sérstökum aðstæðum. Við þurfum virðingu fyrir þingræðinu. Það er eingöngu í afar sérstökum aðstæðum sem geta skapast í samfélaginu. Ég tel mjög mikilvægt að forsetinn beri virðingu fyrir þingræðinu.“
Hvernig horfir framboð forsætisráðherra við þér?
„Mér finnst frábært hvað það eru ótrúlega margir sterkir frambjóðendur. Það er fegurð lýðræðisins sem við fáum á njóta næstu vikurnar. Ég er að hringja í þig úr herbergi á Hörgslandskoti þar sem kosið var utan kjörstaðar. Afi minn var hreppsstjóri og það var kosið utan kjörstaðar og hingað komu margir að kjósa.
„Svo að virðing mín fyrir lýðræðinu, það að fólk bjóði fram krafta sína og ekki síst að fólk nýti kosningaréttinn er eitthvað sem ég mun tala fyrir. Enda mun barátta mín snúast um mikilvægi þátttöku og samvinnu. Það eru gildin sem hafa byggt upp ísland og að mínu mati gildin sem ég held að við þurfum að halda fast í til að efla tækifæri okkar fyrir framtíðina.“
Halla Hrund segir þekkingu sína á auðlindamálum í starfi orkumálastjóra koma til með að nýtast í embætti, sem og bakgrunnur hennar og tengsl við landsbyggðina.
„Ég tek auðvitað minn bakgrunn með mér inn í embættið. Ég horfi á að vera fulltrúi fólksins og vinna að því að gera sem mest gagn. Ég ólst upp í Árbænum og var mikið í sveit austur á Síðu og öðlaðist mikla virðingu fyrir auðlindum okkar, bæði menningarauðlindum og hugviti enn ekki síður náttúruauðlindum sem eru áþreifanlegar, sérstaklega í landbúnaði.
Ég hef ríka þekkingu á auðlindamálum, sem ég nýti í starfi mínu sem orkumálastjóri og hef sömuleiðis byggt upp þekkingu á menningu og menntun í jafnréttismálum í störfum mínum í bandaríkjunum og Evrópu og V-Afríku. Það er sá farangur pg þekking sem ég tek með mér í embættið. Síðan er það samtalið við þjóðina sem ég hlakka tila ð eiga beint á komandi vikum sem felur í sér hvernig við getum fundið saman tækifærin til þess að efla þau bæði heima fyrir og erlendis.
Spurð hvernig hún hyggst nýta þekkingu sína í embætti segir hún:
„Auðvitað skipta málefni um sjálfbærni heiminn allan miklu máli, það mun verða einn af þeim málaflokkum sem ég mun tala fyrir nái ég kjöri á vettvangi alþjóðamála. Enda höfum við þar gríðarlega þekkingu en margt að læra sömuleiðis. Ég mun horfa á ólík málefni og heilt yfir nýta forsetaembættið með sem bestum hætti til að gera gagn og skapa tækifæri um allt Ísland. Tækifærin eru á landinu öllu og líka í alþjóðlegu samhengi. Fyrst og fremst mun ég vera þjónn fólks og vinna fyrir hagsmuni almennings.“
Málefni sem hún leggi mesta áherslu á séu auðlindir, menning, hugvitið sem birtist m.a. í nýsköpun atvinnulífs.
„Síðan eru auðvitað náttúruauðlindirnar sem eru gríðarlega mikilvægar fyrir okkar kynslóðir og komandi kynslóðir. Auðurinn okkar býr í fólkinu í landinu, í þjóðinni allri. Það er þörf á því að fá alla til að vinna saman.“
Halla Hrund mun tilkynna ákvörðun sína um mögulegt forsetaframboð á fundi á Kirkjubæjarklaustri klukkan 14 í dag.