Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það ekki hafa komið sér á óvart að þingfundi hafi verið frestað eins og raunin varð fyrr í dag.
Sérstaklega í ljósi þess að þrettán ný stjórnarþingmál hefðu komið inn á dagskrá þingsins sem sé óvenjulegt þegar um starfsstjórn er að ræða.
„Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun að fresta þingfundi hvað sem hún segir okkur um gang mála í þessum stjórnarmyndunarviðræðum. Augljóslega gefur þetta til kynna að menn séu ekki búnir að leiða þetta mál til lykta,“ segir Sigmundur.
Eru þið í stjórnarandstöðunni eitthvað meira inni í því að hve þetta er langt komið á leið?
„Nei ég get ekki sagt það. En ég sakna þess að sjá ekki Dag B. Eggertsson taka þátt í þessum viðræðum. Hann hefur náttúrlega haft mjög mikil áhrif á stefnu fráfarandi ríkisstjórnar, t.a.m, hvað varðar flugvöllinn og borgarlínu. Verður þessum Samfylkingarmálum fylgt eftir áfram með nýrri ríkisstjórn. Það vitum við ekki,“ segir Sigmundur Davíð.