Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að hún hafi tekið samtöl um mögulegt stjórnarsamstarf þegar leitað var eftir því af hálfu stjórnarflokka.
Hins vegar hafi alltaf verið ljóst í hennar huga að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi haft hug á frekara samstarfi.
Hún segir þjóðina orðna leiða á tali um stólaskipti. Nær lagi væri að einbeita sér að því að ná vöxtum og verðbólgu niður.
„Á spennandi pólitískum tímum þá eiga samtöl sér stað. En það var allan tímann ljóst að þessir flokkar ætluðu að vinna saman,“ segir Þorgerður Katrín.
Fram kom á fundinum í dag þar sem ríkisstjórnin var kynnt að ríkisstjórnin setti útlendingamál og orkumál á oddinn. Þorgerður segir ekkert hafa komið fram sem gefi til kynna að Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn séu nær því að ná saman varðandi þá málaflokka.
„Þessi stólaskipti hafa ekki sagt þjóðinni neitt annað en að límið við stólana er seigt. En þjóðin er hins vegar engu nær varðandi það hvernig leysa á þessi stóru mál,“ segir Þorgerður Katrín.
Heldurðu að stjórnin lifi af til haustsins 2025?
„Í haust munu allir þessir flokkar verða mjög pragmatískir. Þeir vildu ekki kosningar núna og vilja ekki kosningar í haust. Þeir þora það einfaldlega ekki. Við í Viðreisn höfum kallað eftir kosningum þannig að við fáum ríkisstjórn sem tekur á þessum málum. Hvort sem þau eru erfið, óþægileg eða snúin.“