Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, telur það bæði eðlilegt og góðar fréttir að forsætisráðuneytinu verði nú stýrt af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur segir að áhersla nýrrar ríkisstjórnar á orkumál, útlendingamál og efnahagsmál snúist um hagsmuni þjóðarinnar.
„Við erum stærsti flokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi og því finnst mér það mjög rökrétt – þegar forsætisráðherra stígur frá – að Bjarni Benediktsson taki við,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.
Á meðan viðræðum um nýja ríkisstjórn stóð voru einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem vildu nýta tækifærið og mynda ríkisstjórn án aðkomu Vinstri grænna, að því er heimildir mbl.is herma.
Spurður hvort að áframhaldandi samstarf hafi verið farsælli lending segir Guðlaugur:
„Það var ákveðið í upphafi kjörtímabils að fara í samstarf þessara þriggja flokka og það var líka vitað hvar þeir lágu í pólitík, Vinstri grænir þá og Framsóknarflokkurinn. Það að breyta því með mjög skömmum fyrirvara þegar lítið er eftir af kjörtímabilinu er mjög snúið. Þannig þetta er ekki sama staða og var uppi í upphafi kjörtímabils og það liggur alveg fyrir að menn höfðu lítinn tíma, bæði til þess að vinna þessa hluti og sömuleiðis að þá er lítið eftir af kjörtímabilinu. Þannig það er mjög skiljanlegt að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi sest niður með þeim flokkum sem við erum með í ríkisstjórn,“ segir Guðlaugur.
Á blaðamannafundi fyrr í dag kom fram að meðal áherslna nýrrar ríkisstjórnar væru efnahagsmálin, orkumálin og útlendingamálin.
Kom Sjálfstæðisflokkurinn betur úr þessum samningaviðræðum sem áttu sér stað?
„Staðreyndin er bara að þessi mál, öll þrjú, eru mál sem við verðum að ná árangri í eins hratt og mögulegt er. Það skiptir engu máli hvaða stjórnmálaafl það er, þetta snýst um hagsmuni þjóðarinnar,“ segir Guðlaugur.
Hann segir algjört grundvallaratriði vera að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu til að tryggja stöðugleika og velsæld í landinu.
„Það er löngu orðið ljóst að við höfum ekki verið vakandi þegar kemur að málefnum sem tengjast hælisleitendum, ekki nægilega. Þó svo að margt hafi verið gert gott á þessu kjörtímabili þá verðum við virkilega að vera einbeitt í því að snúa af þeirri braut. Þegar kemur að orkumálum þá erum við að horfa upp á kyrrstöðu og mjög lítið gert í 15-20 ár. Við höfum gert meira núna á tveimur árum heldur en var gert áratugum á undan.
En það breytir engu ef við klárum ekki þau frumvarp sem liggja fyrir þinginu – búin að liggja lengi – og höldum áfram að vinna að viðbragðsáætlun þegar kemur að þeim málum, þá lendum við í verulegum vandræðum. Það hefur ekkert að gera með annað en heilbrigða skynsemi að leggja áherslu á þessa málaflokka,“ segir Guðlaugur.
Hann vonast til þess að hægt verði að klára frumvörp sem hann hefur lagt fyrir þingið um sameiningu stofnana sem og annarra frumvarpa sem miða að því að koma á skýrari leikreglum á raforkumarkaði og auknu gagnsæi.
„Þannig ég lít svo á að menn séu einbeittari í því að klára þessi mál,“ segir hann.