Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr fjármálaráðherra, segir aðspurður ekki hægt að tala um að það hafi staðið tæpt að ríkisstjórnin myndi halda áfram.
„Hins vegar var mjög mikilvægt að flokkarnir settust niður. Við notuðum aðeins tækifærið til að spyrja okkur að því hvað við getum gert betur,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segir að fyrir vikið sé það hans trú að hægt verði að koma samheldnari og sterkari til leiks.
Var vilji hjá þér til þess að vera forsætisráðherra?
„Það var að sjálfsögðu vilji. Hins vegar var það mat okkar sem voru í þessum viðræðum að þessi skipting myndi verða líklegust og best til að gera samstarfið traustara og betra. Með þessum hætti er hugmyndin að við getum nýst samfélaginu betur en með annarri útkomu. En ég hefði að sjálfsögðu verið tilbúinn að axla þá ábyrgð,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segir að ekkert hafi verið rætt um að flýta kosningum. Verkefnin framundan ráði för. „Ef það gengur vel að klára þessi verkefni í vor og haust þá sjáum við til hvernig staðan verður þá.“
Þá bendir hann á að búið sé að boða verkefni sem tekin verða fyrir í haust. „Það þarf líka tíma og því þurfum við kannski að nota allan tímann til þess,“ segir Sigurður Ingi.
Hann segist koma brattur inn í fjármálaráðuneytið. Bendir hann jafnframt á að hann hafi verið í ríkisfjármálanefnd meira og minna frá árinu 2016.
Hann viðurkennir eftirsjá eftir innviðaráðuneytinu. Margt þurfi að klára þar og að hann hefði gjarnan viljað vera kominn lengra með sum þeirra verkefna.
„Við erum enn með of háa verðólgu en við trúum því að það sem við munum birta í fjármálaáætluninni muni hjálpa til,“ segir Sigurður Ingi.