Biðja Bjarkeyju um að bjarga vertíðinni

Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segir mikilvægt að sett …
Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segir mikilvægt að sett verði í forgang að sjá strabdveiðunum fyrir nægum veiðiheimildum svo bátarnir fá að veiða þá daga sem þeir eiga samkvæmt lögum. Ljósmynd/Aðsend

Strand­veiðisjó­menn binda von­ir við að nýr mat­vælaráðherra, Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, út­vegi strand­veiðunum næg­ar veiðiheim­ild­ir til að hægt verði að stunda strand­veiðar í þá fjóra mánuði sem veiðitíma­bilið nær til. Strand­veiðifé­lag Íslands óskað eft­ir fundi með nýj­um ráðherra til að ræða málið upp­lýs­ir Kjart­an Sveins­son formaður fé­lags­ins

„Helsta áhersl­an hjá okk­ur er að reyna að bjarga vertíðinni og að þetta verði ekki eins og síðustu tvö sum­ur þar sem veiðar voru stöðvaðar löngu áður en veiðitíma­bil­inu lauk. Það eru ör­ugg­lega marg­ir sem eru að biðja um fund núna en fyrst vertíðin er að fara að bresta á hlýt­ur að vera for­gang­ur að skoða þetta. Við vit­um að strand­veiðipott­ur­inn er allt of lít­ill og er mik­il­vægt að fyrsta verk­efni verði að skoða hvernig megi stækka hann þannig að við get­um klárað tíma­bilið,“ seg­ir hann.

Strand­veiðitíma­bilið er frá maí til ág­úst og hef­ur hver bát­ur 12 sókn­ar­daga í hverj­um mánuði þar sem aðeins er heim­ilt er að veiða fyr­ir­fram ákveðið magn í hverri veiðiferð. Veiðum strand­veiðisjó­manna hafa hins veg­ar verið stöðvaðar af Fiski­stofu þegar veiðiheim­ild­ir sme veiðunum er ráðstafað klár­ast.

Und­an­far­in tvö ár hafa þær verið stöðvaðar í kring­um miðjan júlí og leiddi þetta til mót­mæla síðasta sum­ar.

Ákall um sveigj­an­leika

Síðustu ár hef­ur veiðiheim­ild­um fyr­ir um tíu þúsund tonn­um af þorski og þúsund tonna af ufsa verið ráðstafað til strand­veiða og hef­ur hlut­fall þess­ara heim­ilda aldrei verið meira af heild­arkvóta en síðustu ár, enda hef­ur út­hlutaður þorskkvóti dreg­ist veru­lega sam­an síðustu fimm ár. 

Spurður hvort það sé raun­hæft að komið verði til móts við kröf­ur strand­veiðisjó­manna, svar­ar Kjart­an að hann sjái því ekk­ert til fyr­ir­stöðu.

„Við höf­um bent fyrri ráðherr­um á hvernig sé hægt að sækja þess­ar veiðiheim­ild­ir, þannig að þetta er vel hægt. Það er enda­laus sveigj­an­leiki í afla­marks­kerf­inu með teg­unda- og ára­til­færsl­ur og svo fram­veg­is. Það ætti al­veg að vera hægt að út­búa sveigj­an­leika fyr­ir okk­ur því það er svo rosa­lega lítið sem vant­ar upp á af heild­arkvót­an­um til að þetta gangi upp. Þetta snýst bara um póli­tísk­an vilja.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr matvælaráðherra.
Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir er nýr mat­vælaráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Hafi inn­sýn í grein­ina

Jafn­framt seg­ir Kjart­an það skipta máli að Bjarkey sé ekki þingmaður af höfuðborg­ar­svæðinu. „Hún ætti að hafa miklu meiri inn­sýn í grein­ina og hafi til­finn­ingu fyr­ir mik­il­vægi fisk­veiða, að þetta sé ekki bara eitt­hvað til að skatt­leggja held­ur eitt­hvað sem er at­vinnu­skap­andi fyr­ir lands­byggðina. Ég hef fulla trú á því að hún sjái það og skilji það.“

Hins veg­ar viður­kenn­ir hann að marg­ir strand­veiðisjó­menn vilji ekki vera of bjart­sýn­ir

„Svandís [Svavars­dótt­ir] byrjaði [sem mat­vælaráðherra] með mikla vel­vild frá okk­ur sem til­heyr­um strand­veiðiflot­an­um og hún saxaði ansi hressi­lega á það. Okk­ar leiðir skilja ekki í ein­hverri rosa­legri hlýju. Bjarkey tek­ur við okk­ur svo­lítið fúl­um, en ég trúi því að hún hafi skiln­ing á mála­flokkn­um og muni gera allt sem hún get­ur til að geta bjargað vertíðinni fyr­ir okk­ur í sum­ar.“

Í fram­hald­inu sé ekki síður mik­il­vægt að mat­vælaráðherra hefji vinnu við lang­tíma­áætl­un um að breyta um­gjörð strand­veiðanna „þannig að þetta verði at­vinnu­grein sem hægt er að lifa af,“ seg­ir Kjart­an.

mbl.is