Íranski herinn sem nefnir sig Íranski byltingavörðurinn tók stjórn á flutningaskipi sem Íranir telja tengjast „Síonistastjórninni“ (Ísrael) fyrr í dag nærri Hormuz-sundi. 25 skipverjar eru um borð í skipinu sem er nú verið að sigla inn á íranskt yfirráðasvæði.
Í myndbandi sem Íranir deildu á samfélagsmiðlum má sjá sérsveitarmenn íranska byltingavarðarins fara um borð í skipið úr þyrlu.
Skipið siglir undir portúgölsku flaggi og heitir MSC Aries. Ísraelsmenn segja þetta vera sjóræningjaaðgerð og biðla nú til Evrópusambandsins að skilgreina íranska byltingavörðinn sem hryðjuverkasamtök.
„Ég kalla eftir því að Evrópusambandið og frjálsi heimurinn skilgreini íranska byltingarvörðinn sem hryðjuverkasamtök og grípi til refsiaðgerða gegn Íran,“ sagði Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.
Hormuz-sundið tengir Persaflóa við Indlandshaf. Samkvæmt bandarísku orkuumálastofnuninni fer meira en 20% olíubirgða á heimsvísu um það ár hvert.
Mikill hiti einkennir samskipti Ísraels og Írans. Klerkastjórnin í Íran hefur heitið hefndum eftir að ráðist var á viðbyggingu við ræðismannsbústað Írana í Damaskus í Sýrlandi, en sjö meðlimir íranska byltingarvarðarins, þar af tveir hershöfðingjar, féllu í árásinni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann ætti von á því að klerkastjórnin í Íran myndi reyna að ráðast á Ísrael innan skamms.