Talsmaður ísraelska hersins, Daniel Hagari, segir að herstöð á óskilgreindum stað í Ísrael hafi orðið fyrir minniháttar skemmdum í árás Íran. Hann gaf það til kynna að eitthvað af þeim flugskeytum og drónum sem skotið var að landinu hafi náð í gegnum varnarkerfi Ísraels.
Hann segir jafnframt að Ísraelsher sé enn að skjóta niður flugskeyti og árásardróna. Hluti þeirra hafi verið skotinn niður utan Ísraels en hluti þeirra innan lofthelgi landsins.
Þá tilkynnti hann jafnframt um það að engar loftvarnarflautur heyrðust innan Ísrael sem stendur.
Fregnir hafa borist um að tíu ára stúlka hafi særst í árásinni. Er hún sögð af samfélagi Bedúína sem býr í suðurhluta landsins.
Hún var færð á spítala eftir að hafa fengið sprengjubrot í höfuðið. Um 20 aðrir voru færðir á sjúkrahús en sagt er að það hafi verið vegna meiðsla sem urðu þegar fólk hraðaði sér í skjól eða vegna ofsahræðslu sem greip um sig hjá mörgum íbúa landsins.
NY Times segir frá.