Gleymir seint deginum sem skriðurnar féllu

Framhús var reist á Seyðisfirði árið 1907 en eyðilagðist í …
Framhús var reist á Seyðisfirði árið 1907 en eyðilagðist í aurskriðum í desember 2020. Dagný Erla og þáverandi eiginmaður hennar festu kaup á húsinu árið 2013 og höfðu verið að gera það upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Erla Ómars­dótt­ir, íbúi á Seyðis­firði, seg­ir 18. des­em­ber 2020 seint líða sér úr minni. Hún var ný­kom­in heim til for­eldra sinna þegar bróðir henn­ar sagði við hana: „Fram­hús er farið.“

„Ég á mjög auðvelt með að detta inn í þenn­an dag eins og hann hafi gerst í gær, en á sama tíma líður mér eins og það sé óra­langt síðan. Þetta er skrít­in til­finn­ing stund­um,“ seg­ir Dagný.

Á þess­um tíma var Dagný að vinna í grunn­skól­an­um á Seyðis­firði. Hún og barns­faðir henn­ar voru skil­in að borði og sæng, hann átti heima í hús­inu þeirra, Fram­húsi, en hún leigði íbúð ann­ars staðar í bæn­um.

Dagný er viðmæl­andi í nýj­asta þætti af Hring­ferðinni. Hlusta má á þátt­inn í heild sinni í spil­ar­an­um hér að neðan. 

 

Stóð með bakið í fjöll­in

„Þenn­an dag voru ein­mitt litlu jól­in í skól­an­um og gekk mikið á eins og er á litlu jól­un­um. Það var svo vont veður, ég man að við vor­um inni í gamla skóla, vana­lega erum við í Herðubreið, fé­lags­heim­il­inu,“ seg­ir Dagný. Litlu jól­in voru búin um klukk­an tvö eft­ir há­degi og þá fer Dagný heim með dótt­ur sinni.

Á leiðinni heim hlupu þær einn hring í kring­um íþrótta­völl­inn í grenj­andi rign­ingu. Svo fer Dagný í að skutla dóti heim til vin­konu sinn­ar og svo ann­arri vin­konu sinni, en sú hafði þurft að rýma heim­ili sitt vegna hættu á skriðuföll­um.

„Ég fer svo bara heim til mömmu og pabba. Ég man að Helgi bróðir hringdi í mig og ég er bara eitt­hvað svona að kjafta í sím­ann. Ég sé svo Gunn­ar mág minn sem stend­ur fyr­ir utan hjá mömmu og pabba. Ég er ein­hvern veg­inn með bakið í fjöll­in,“ seg­ir Dagný. Mág­ur henn­ar virt­ist eitt­hvað stressaður og svo kem­ur bróðir henn­ar aðvíf­andi og seg­ir þessi orð: „Fram­hús er farið.“

Dagný Erla Ómarsdóttir tók á móti blaðamönnum á bæjarskrifstofunum á …
Dagný Erla Ómars­dótt­ir tók á móti blaðamönn­um á bæj­ar­skrif­stof­un­um á Seyðis­firði. mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Sá ekki skriðuna falla

Fram­hús höfðu Dagný og þáver­andi eig­inmaður henn­ar keypt árið 2013 og voru í óðaönn að gera það upp, enda yfir 100 ára gam­alt hús. Það er eitt þeirra húsa sem gjör­eyðilögðust í aur­skriðunum, og þar sem áður stóð Fram­hús er lítið að sjá þegar snjór er yfir öllu.

Dagný rétt missti af því að sjá skriðuna falla en það fyrsta sem kom upp í huga henn­ar var hvort faðir dætra henn­ar hefði verið heima. Pabbi henn­ar gat þó strax sagt henni að eng­inn hefði verið heima í Fram­húsi þegar skriðan féll.

Í kjöl­far skriðufalls­ins fór Dagný með fjöl­skyld­unni niður á Lóns­leiru þar sem fólk hafði staðið og fylgst með skriðunni falla. „Ég man að ég fékk svona mó­ment, ég var þarna. Ég var leið, ég faðmaði fólkið, svo hugsaði ég bara: Ég þarf að fara heim og sækja börn­in. Ég fór bara og sótti stelp­una okk­ar í leik­skól­ann,“ seg­ir Dagný.

Hún seg­ir dag­ana á eft­ir hafa verið erfiða því hætt­an vofði enn yfir. „Það var svo dimmt líka. Þannig að maður vissi ekki al­veg, maður sá ekki neitt. Það er svo sér­stakt.“ Hún seg­ir fólk oft tala um hávaðann sem það heyrði þegar skriðurn­ar féllu en myrkrið er það sem sit­ur eft­ir hjá henni.

Dagný seg­ir jól­in hafa verið mjög skrít­in en þau gátu þó farið heim til for­eldra henn­ar fyr­ir aðfanga­dag. „Við reynd­um bara að gera gott úr þessu,“ seg­ir Dagný.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: