Halla Tómasdóttir telur að fylgið geti tekið miklum breytingum þegar forsetaframbjóðendur mætast í kappræðum.
„Við erum að gefa okkur góðan tíma til að hitta fólkið í landinu og höfum fulla trú á því. Eins og ég hef sagt áður þá held ég að í rauninni byrji kosningabaráttan ekki fyrr en þjóðin fær tækifæri til að átta sig á hver eru i framboði, sem kemur í ljós eftir rúma viku, og þjóðin fær tækifæri til að sjá frambjóðendur saman í samtali,“ segir Halla í samtali við mbl.is.
Í könnun Prósents sem birt var í Morgunblaðinu í morgun mælist Halla með 5,8% fylgi og bætir við sig frá könnun Prósents í síðustu viku.
„Ég er bara mjög róleg að vinna mína vinnu, hitta fólkið í landinu og hef fulla trú á því að það eigi margt eftir að breytast þegar tækifæri gefst til samtals á milli frambjóðenda,“ segir Halla.
Halla segir það sjást í könnunum og að hún heyri það í samtölum að margir landsmenn séu óákveðnir og bíði eftir því að fá að sjá fólkið í kappræðum.
„Ég bíð róleg eftir því en auðvitað er þetta þolinmæðisvinna þegar maður er að fara um og hitta fólk. En viðtökur eru alla vega afskaplega góðar hvert sem við förum.“
Halla ferðast í dag um Suðurnes og hyggst fara í Árborg og nágrenni á morgun. Þá mun hún halda fundi um Austurland á næstu dögum.
„Ég vil hitta fólk alls staðar fyrir og ég vil hlusta á fólk. Ég hef auðvitað verið að tala fyrir því að ég telji að Bessastaðir eigi að fara fyrir bæði samtali og samstarfi milli ólíkra hópa og kynslóða um framtíðina,“ segir Halla.
„Ég er að nálgast mitt framboð þannig að ég er ekki bara að kynna mig heldur er ég líka að hlusta á það sem brennur á fólki í landinu. Samtalið er mjög ríkt alls staðar sem ég hef farið hingað til og ég skynja djúpa þörf til að ræða mörg stór mál sem varða framtíð þessarar þjóðar og skipta næstu kynslóð ekki síst miklu máli.“