„Mér finnst þetta byrja á þessum degi“

Halla Tómasdóttir í ráðhúsinu í dag.
Halla Tómasdóttir í ráðhúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna vil ég meina að við séum kom­in út úr bún­ings­her­berg­inu og inn á völl­inn og ætl­um að fara ræða framtíðina,“ seg­ir Halla Tóm­as­dótt­ir. Halla kveðst vera bjart­sýn.

Halla skilaði inn und­ir­skriftal­ista fyr­ir for­seta­kosn­ing­ar til Lands­kjörs­stjórn­ar fyr­ir skemmstu. 

„Mér finnst þetta byrja á þess­um degi þegar kem­ur í ljós hverj­ir eru í fram­boði og við byrj­um að eiga fleiri sam­töl sam­an, ég og mín­ir meðfram­bjóðend­ur,“ seg­ir Halla. 

Hvernig for­seti verður Halla Tóm­as­dótt­ir?

„Halla verður for­seti sem vill byggja brýr, frek­ar en að grafa skurði. Halla verður for­seti sem vill hlusta á þjóðina sína og virki­lega fara fyr­ir þeim gild­um og þeirri sýn sem þjóðin sjálf hef­ur. Þannig að ég verð í sam­tali og sam­starfi við eins marga aðila og eru til­bún­ir til þess. Ég mun leggja mikla áherslu á vellíðan ungs fólks sem og okk­ar eldra fólks,“ seg­ir Halla. 

Skipt­ir máli að kjósa mann­eskju sem vill byggja brýr

Halla bauð sig fram til embætt­is for­seta árið 2016 og vann sér inn tals­vert mikið fylgi á loka­sprett­in­um. Spurð hvort hún telji að það sama muni end­ur­taka sig seg­ir hún:

Það auðvitað veit eng­inn og það á eng­inn neitt inni í svona kosn­inga­bar­áttu. Ég hef trú á því að þegar fólk fær tæki­færi til að sjá okk­ur sem í fram­boði erum muni það ekki láta neinn leiða sig um það hvern eigi að kjósa held­ur mun fólk kjósa með hjart­anu. Þetta er ein­stakt tæki­færi til að gera það, eina kosn­ing­in sem við get­um kosið ein­stak­ling. Það gæti skipt máli á þess­um tím­um að kjósa mann­eskju sem ekki kem­ur úr flokk­spóli­tík, vill byggja brýr og horfa til framtíðar og leiða fólk úr öll­um hóp­um og kyn­slóðum sam­fé­lags­ins sam­an til að móta þessa framtíð.“

Spurð hvort hún sé bjart­sýn á kosn­inga­bar­átt­una fram und­an kveðst Halla alltaf vera bjart­sýn.

„Ég vel að vera hug­rökk og bjart­sýn á hverj­um morgni, ég held að það skipt­ir máli. Og ég vona að við sem þjóð velj­um að vera hug­rökk og bjart­sýn. Ég mun tala fyr­ir þeim gild­um ásamt því að minna okk­ur á að við eig­um að vera þakk­lát fyr­ir að hafa fæðst í þessu landi, með all­ar þess­ar auðlind­ir. En við eig­um að halda á þeim þannig að næsta kyn­slóð verði þakk­lát fyr­ir það sem við ger­um á okk­ar líf­tíma,“ seg­ir Halla að lok­um.

mbl.is