„Ég held að margt geti breyst“

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta orðið form­legt núna. Við erum ell­efu og það er tala sem er í miklu upp­á­haldi hjá mér,“ seg­ir Halla Tóm­as­dótt­ir for­setafram­bjóðandi, en hún á af­mæli 11. októ­ber og tal­an því eins kon­ar happa­tala.

Blaðamaður mbl.is ræddi við Höllu að lokn­um fundi lands­kjör­stjórn­ar í morg­un þar sem til­kynnt var um fram­boðin.

Hún kveðst afar spennt fyr­ir fram­hald­inu og að fá færi á að eiga í sam­töl­um við mót­fram­bjóðend­ur sína. 

Vill sýna ferl­inu virðingu

„Ég segi nú stund­um þegar fólk er að býsn­ast yfir því að þetta séu of marg­ir fram­bjóðend­ur að sumstaðar hef­ur fólk lítið val og ég held að við eig­um að fagna því að hér sé breitt úr­val af fólki sem vilji gera gagn og láta gott af sér leiða fyr­ir land og þjóð,“ seg­ir Halla.

Spurð hvers vegna hún hafi mætt í eig­in per­sónu til að hlýða á yf­ir­ferð fram­boðanna kveðst Halla fyr­ir það fyrsta hafa verið stödd í bæn­um en ekki út á landi eins og hún og aðrir hafi verið á und­an­förn­um viku. 

„En ég vil sýna þessu ferli virðingu, mér finnst þetta mik­il­vægt ferli þannig þegar ég frétti af fund­in­um þá flýtti ég fyr­ir viðtali sem ég var í, í morg­un og vildi vera hér í eig­in per­sónu.“

Halla á fundi landskjörstjórnar í morgun.
Halla á fundi lands­kjör­stjórn­ar í morg­un. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Var með 1% um þetta leyti fyr­ir átta árum

Spurð hvort skoðanakann­an­ir og fylgistöl­ur væru eitt­hvað farn­ar að fá á hana svar­ar Halla neit­andi enda sé ballið rétt að byrja. Að henn­ar mati hefj­ist bar­átt­an fyrst fyr­ir al­vöru á föstu­dag­inn þegar fram­bjóðend­ur skili end­an­lega inn meðmæl­endal­ist­um sín­um og mæt­ist í kapp­ræðum síðar um kvöldið. 

Kveðst hún telja það mik­il­vægt að þjóðin fá færi á að kynn­ast fram­bjóðend­un­um bet­ur áður en að dóm­ar séu kveðnir upp enda enn þó nokk­ur tími til stefnu. Kveðst hún skilja áhug­ann á skoðana­könn­un­um enda geti þær verið skemmti­leg­ar. 

„En ég hvet kjós­end­ur til að kynna sér fram­bjóðend­ur áður en þeir ákveða sig og það er mín upp­lif­un, af því að fara um landið og hitta fólk, er að flest­ir séu að gera það. Þess vegna er stór hluti óákveðin,“ seg­ir Halla.

„Ég held að margt geti breyst og ég tala þar af reynslu. Um þetta leyti fyr­ir átta árum þá var ég með 1% í skoðana­könn­un­um og endaði með 28%.“

mbl.is