Harma umfjöllun um fyrsta hinsegin forsetaframbjóðandann

Bjarndís Tómasdóttir formaður Samtakanna ‘78 segir samtökin harma að gert …
Bjarndís Tómasdóttir formaður Samtakanna ‘78 segir samtökin harma að gert sé lítið úr hæfni Baldurs vegna kynhneigðar hans. Samsett mynd

Sam­tök­in ‘78, hags­muna­fé­lag hinseg­in fólks á Íslandi, hafa sent frá sér yf­ir­lýs­ingu vegna op­in­berr­ar umræðu um for­setafram­bjóðend­ur. Í yf­ir­lýs­ing­unni harma sam­tök­in að einka­líf fyrsta op­in­ber­lega hinseg­in for­setafram­bjóðand­ans sé gert að aðal­atriði í sam­töl­um og um­fjöll­un.

Bjarn­dís Tóm­as­dótt­ir, formaður Sam­tak­anna 78, seg­ir sam­tök­in hafa fylgst grannt með umræðunni og vilja þau vekja at­hygli á því að hún sé ekki í lagi.  

„Við vonuðum auðvitað að umræðan færi ekki á þetta stig en við vor­um þess viðbúin vegna þess hvernig sam­fé­lagsum­ræðan hef­ur verið að breyt­ast síðustu ár og hvað fólk hef­ur leyft sér að segja alls kon­ar rætna og ljóta hluti op­in­ber­lega,“ seg­ir Bjarn­dís í sam­tali við mbl.is.

Hinseg­in fólk oft smættað niður í einka­líf sitt

Í til­kynn­ingu frá Sam­tök­un­um seg­ir að í vor hafi stigið í fyrsta sinn fram op­in­ber­lega hinseg­in fram­bjóðandi til for­seta Íslands. Það séu sögu­leg tíðindi enda hefði það verið óhugs­andi fyr­ir aðeins fáum árum og væri enn, ef ekki væri fyr­ir þrot­lausa bar­áttu síðustu ára­tuga fyr­ir rétt­lát­ara sam­fé­lagi.

„Það er stórt skref og til marks um það hversu langt við höf­um náð í rétt­inda­bar­átt­unni, en meg­in­mark­mið Sam­tak­anna ‘78 er að hinseg­in fólk sé sýni­legt og viður­kennt og njóti fyllstu rétt­inda á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins.

Hinseg­in fólk þekk­ir vel að vera smættað niður í einka­líf sitt og að það sé gert að aðal­atriði í sam­töl­um sem ættu að snú­ast um allt annað. Slík fram­koma ber vott um for­dóma­full viðhorf, hvort sem fólk átt­ar sig á því eða ekki.“

Hvetja til mál­efna­legr­ar um­fjöll­un­ar

Sam­tök­in segja það eru mik­il von­brigði að sjá bæði al­menna kjós­end­ur og jafn­vel fjöl­miðlafólk gera lítið úr hæfni Bald­urs Þór­halls­son­ar til þess að gegna embætti for­seta Íslands á grund­velli þess að hann er hommi.

„Stjórn Sam­tak­anna ‘78 hvet­ur ís­lenskt sam­fé­lag í heild sinni til að halda sig við mál­efna­lega um­fjöll­un í aðdrag­anda for­seta­kosn­inga og falla ekki í þá gryfju að gera einka­líf fram­bjóðenda að aðal­atriði.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina