Hvað verður um plastið?

Plastskúlptúr eftir kanadíska listamanninn Benjamin Von Wong fyrir utan bygginguna …
Plastskúlptúr eftir kanadíska listamanninn Benjamin Von Wong fyrir utan bygginguna í Ottawa þar sem viðræðurnar fóru fram. AFP/Dave Chan

Fjórðu og næst­síðustu um­ferð samn­ingaviðræðna til að draga úr plast­meng­un í heim­in­um lauk í kanadísku höfuðborg­inni Ottawa í morg­un.

Bú­ist er við því að alþjóðleg­ur samn­ing­ur, sá fyrsti sinn­ar teg­und­ar, verði til­bú­inn í lok árs­ins, án þess þó að há­mark verði sett á plast­fram­leiðslu. Sam­einuðu þjóðarn­ar leiða samn­ingaviðræðurn­ar.

Full­trú­ar frá 175 þjóðum voru á meðal þeirra sem ræddu drög að alþjóðleg­um sátt­mála um að vinna bug á plast­plág­unni, sem hef­ur dreift sér víða, þar á meðal á fjallstind­um, í sjón­um en einnig í blóði manna og brjóstamjólk.

Steven Guilbeault, umhverfis- og loftslagsráðherra Kanada, á ráðstefnunni.
Steven Guil­beault, um­hverf­is- og lofts­lags­ráðherra Kan­ada, á ráðstefn­unni. AFP/​Dave Chan

Bjart­sýn á sam­komu­lag í lok árs­ins

Í viðræðunum í Ottawa var tek­inn upp þráður­inn síðan þeim lauk í Ken­ía fyr­ir fimm mánuðum síðan. Lokaum­ferð viðræðnanna fer síðan fram í Suður-Kór­eu í nóv­em­ber.

Viðræðurn­ar í Ottawa báru vott um „gríðar­mikla breyt­ingu í tóni og orku” miðað við síðustu um­ferð, að sögn kanadísku þing­kon­unn­ar Ju­lie Dabrus­in.

„Ég er mjög bjart­sýn á að við náum sam­komu­lagi í lok árs­ins [...] um að binda enda á plast­meng­un fyr­ir árið 2040,” sagði hún.

Aðgerðasinnar í Ottawa.
Aðgerðasinn­ar í Ottawa. AFP/​Dave Chan

Þak á plast­meng­un komst ekki inn 

Þak á plast­fram­leiðslu, sem hafði verði lagt til, náði þó ekki inn í texta með samn­ings­drög­um sem var samþykkt­ur í lok ráðstefn­unn­ar í Ottawa.

Aðgerðasinn­ar hafa bar­ist fyr­ir því að dregið verði úr plast­fram­leiðslu. Þjóðir sem fram­leiða olíu og plastiðnaður­inn hafa aft­ur á móti talað gegn því og vilja þau frek­ar end­ur­vinna plastið sem fyr­ir er.

„Þú get­ur ekki bundið binda enda á plast­meng­un ef þú dreg­ur ekki úr magni plasts­ins sem er fram­leitt,” sagði Gra­ham For­bes hjá Green­peace við AFP.

Árleg plast­fram­leiðsla tvö­fald­ast

Árleg plast­fram­leiðsla hef­ur meira en tvö­fald­ast á síðustu 20 árum. Núna nem­ur hún 460 millj­ón­um tonna og er á góðri leið með að þre­fald­ast inn­an fjög­urra ára­tuga ef ekk­ert verður að gert.

„Það hvernig tek­ist verður á við plast­fram­leiðslu mun skera úr um hvort þessi sátt­máli telst vel heppnaður eða ekki. Ekk­ert annað mun ganga ef við ger­um þetta ekki á rétt­an hátt,” sagði For­bes.

Fund­ur um­hverf­is­ráðherra G7-ríkj­anna er fyr­ir­hugaður á Ítal­íu þar sem rætt verður um mögu­leik­ann á því að draga úr plast­fram­leiðslu.

Í Ottawa lögðu Perú og Rú­anda til að dregið verði úr plast­fram­leiðslu um 40 pró­sent á næstu 15 árum, sem er í takti við mark­mið Par­ís­arsátt­mál­ans. Plast­fram­leiðsla á sinn þátt í hlýn­un jarðar vegna þess að flest plastefni eru gerð úr jarðefna­eldsneyti.

Liðsmenn Greenpeace í Ottawa.
Liðsmenn Green­peace í Ottawa. AFP/​Dave Chan

Al­ej­andra Parra frá Suður-Am­er­íku sagði á ráðstefn­unni að end­ur­vinnsla á plasti væri „falsk­ur kost­ur”.

Hún sagði að mikið af plasti væri ekki eða gæti ekki verið end­urunnið.

Ókost­ur­inn sem fylgdi því að bræða plast inn í önn­ur form væri jafn­framt sá að eit­ur­efn­um og gróður­húsaloft­teg­und­um væri sleppt út í and­rúms­loftið. Einnig sagði hún söfn­un og flokk­un á end­ur­vinn­an­legu plasti vera til­tölu­lega dýra.

Frá ráðstefnunni í Ottawa.
Frá ráðstefn­unni í Ottawa. AFP/​Dave Chan
mbl.is