TikTok og Universal sættust

UMG og TikTok endurnýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. …
UMG og TikTok endurnýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. janú­ar. Miklar deilur urðu þeirra á milli. AFP

Tónlist stærstu stjarna heims snýr nú aft­ur á TikT­ok, þar sem sam­fé­lags­miðill­inn hef­ur náð sam­komu­lagi við Uni­versal. Með því lýk­ur margra mánaða deilu sem leiddi til þess að mörg af vin­sæl­ustu lög­um heims voru hreinsuð af app­inu.

Fyr­ir­tæk­in sendu frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu í dag þar sem fram kem­ur að samn­ing­ur­inn feli í sér bætt launa­kjör fyr­ir lista­menn og laga­höf­unda Uni­versal Music Group (UMG) og muni einnig draga úr áhyggj­um af fjölg­un efn­is sem fram­leitt er með gervi­greind á TikT­ok.

Hvorki Uni­versal né TikT­ok greindu frá fjár­hags­leg­um skil­mál­um samn­ings­ins. Sir Lucian Grainge, stjórn­ar­formaður Uni­versal, sagði sam­komu­lagið marka kafla­skil í sam­bandi fyr­ir­tækj­anna.

TikT­ok-mynd­bönd­in þagna

Sátt­in bind­ur enda á samn­ingaviðræður sem úr slitnaði fyrr á þessu ári, þegar UMG og TikT­ok end­ur­nýjuðu ekki samn­ing sem rann út 31. janú­ar. Ágrein­ing­ur varð þeirra á milli og fyr­ir­tæk­in gagn­rýndu hvort annað op­in­ber­lega í kjöl­farið.

Uni­versal, sem hef­ur lista­menn­ina Tayl­or Swift, Dra­ke og Bill­ie Eil­ish und­ir sínu merki, lét fjar­læga tónlist allra sinna lista­manna af TikT­ok.

Millj­ón­ir TikT­ok-mynd­banda urðu fyr­ir vikið hljóðlaus­ar og marg­ir tón­lista­menn höfðu þar af leiðandi áhyggj­ur af því að tapa þeim miklu mögu­leik­um til markaðsetn­ing­ar sem TikT­ok býður upp á.

Gert að selja hlut Kín­verja í app­inu

En þótt lög tón­list­ar­manna snúa loks­ins aft­ur á TikT­ok þarf sam­fé­lags­miðill­inn nú að hafa áhyggj­ur af ann­ars kon­ar lög­um.

Banda­ríkjaþing samþykkti nefni­lega í síðustu viku frum­varp til laga sem þving­ar eig­end­ur TikT­ok að losa sig við kín­verska eig­end­ur sína ell­egar eiga yfir höfði sér bann í Banda­ríkj­un­um. 

Not­end­ur smá­for­rits­ins eru 170 millj­ón­ir tals­ins í Banda­ríkj­un­um.

mbl.is