Veiðileyfum á upphafsdegi strandveiða fjölgaði

Strandveiðibáturinn Gullfari HF 290 að koma til hafnar í Sandgerði …
Strandveiðibáturinn Gullfari HF 290 að koma til hafnar í Sandgerði og dragnótabáturinn Maggý VE í bakgrunni. Fleiri bátar voru komnir með strandveiðileyfi á upphafsdegi veiðanna í ár en í fyrra. mbl.is/Hafþór

Bát­um með gilt strand­veiðileyfi á fyrsta degi strand­veiða fjölgaði milli ára og voru 542 komn­ir með veiðileyfi 2. maí, en sama dag á síðasta ári voru 513 bún­ir að fá út­hlutað strand­veiðileyfi. Þetta upp­lýs­ir Fiski­stofa.

Nú í morg­un sést á vef Fiski­stofu að út­hlutað hafi verið 619 strand­veiðileyf­um, en allas var út­hlutað 763 leyf­um á vertíðinni í fyrra. Vert er þó að geta þess að 667 strand­veiðibát­ar lönduðu afla í maí­mánuði í fyrra og er aðeins ann­ar dag­ur veiðanna í dag og því má vænta að fjöldi strand­veiðibáta með leyfi fjölgi á næstu dög­um.

Nóg að gera hjá Fiski­stofu

Tölu­vert hef­ur verið að gera hjá Fiski­stofu frá því að stofn­un­in opnaði fyr­ir um­sókn­ir um strand­veiðileyfi 17. apríl síðastliðinn en að þessu sinni var bæði stuðst við nýtt um­sókn­ar­kerfi, sem Fiski­stofa seg­ir hafa reynst vel, og lögð sér­tök áhersla á að kanna eign­ar­hald hjá lögaðilum sem sækja um leyfi. Hafa um­sækj­end­ur því þurft að skila inn gögn­um sem unnið er úr í þeim til­gangi að koma í veg fyr­ir að viðkom­andi um­sækj­end­ur hafi aðild að fleiri en einu strand­veiðileyfi.

 „Sam­vinna sjófar­enda og Fiski­stofu til að koma í veg fyr­ir slíkt hef­ur verið  með ágæt­um.  Sam­skipti við sjófar­end­ur hafa verið til fyr­ir­mynd­ar, álag hef­ur verið á starfs­mönn­um Fiski­stofu við að af­greiða um­sókn­ir,“ seg­ir í svari Fiski­stofu við fyr­ir­spurn 200 mílna um úr­vinnslu strand­veiðileyfa vegna vertíðar­inn­ar 2024.

Sömu regl­ur og síðustu tíma­bil

Um­gjörð strand­veiðanna hef­ur ekki breyst frá síðasta ári og er greint frá regl­um veiðanna á vef Fiski­stofu.

Hverju veiðileyfi heim­ild til veiða í 12 veiðidaga inn­an hvers mánaðar í maí, júní, júlí og ág­úst, á mánu­dög­um, þriðju­dög­um, miðviku­dög­um og fimmtu­dög­um. Óheim­ilt er að stunda strand­veiðar 1. maí, 20. maí, 17. júní og 5. ág­úst.

Þá er ein veiðiferð heim­il á dag, sem stend­ur ekki leng­ur en 14 klukku­stund­ir. Miðað er við þann tíma er skip læt­ur úr höfn til veiða til þess tíma er það kem­ur til hafn­ar aft­ur til lönd­un­ar. Til þess að veiðiferð telj­ist vera inn­an dags þarf skip að leggja úr höfn til veiða á sama sól­ar­hring og það kem­ur til hafn­ar aft­ur til lönd­un­ar.

Þurfa strand­veiðisjó­menn að til­kynna Land­helg­is­gæsl­unni og Fiski­stofu ef óviðráðan­lega ástæður valda því að skip nái ekki til hafn­ar inn­an 14 klukku­stunda frá upp­hafi veiðiferðar.

Ein­ung­is er heim­ilt að koma með 650 þorskí­gildis­kíló að landi eft­ir hverja veiðiferð. Lagt er á sér­stakt gjald vegna afla sem landað er um­fram 650 þorskí­gildi.

mbl.is