Ég var fullnýttur þjónn Púkarófu

Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði …
Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði hún við harðneskju villikatta í 15 ár. Ljósmynd/Kolbeinn Vormsson

„Púkarófa var mögnuð læða, sér­deil­is fal­leg með gul­græn augu og gríðarlega þraut­seig. Hún varð 17 ára, sem er mjög hár ald­ur fyr­ir villikött. Ég varð þess heiðurs aðnjót­andi að fá að fóstra hana tvö síðustu ár ævi henn­ar,“ seg­ir Krist­ín Kol­beins­dótt­ir um frægu villilæðuna Púkarófu sem fór í sum­ar­landið nú í byrj­un maí, eft­ir harða og viðburðaríka ævi.

„Púkarófa átti stór­an aðdá­enda­hóp og var ein­hverju sinni val­in sam­fé­lags­miðlastjarna dýr­anna, enda hafa marg­ir fylgst með henni árum sam­an á Face­book-síðunni Óska­sjóður Púkarófu. María Þor­varðardótt­ir sér um Óska­sjóð Púkarófu, sem er styrkt­ar­sjóður hafn­firskra villikatta, og Púkarófa kom sjóðnum af stað þegar María kynnt­ist henni. Á veg­um sjóðsins er villikött­um í bæn­um gefið, þeim skaffað kisu­skjól og ung­ir kett­ir fangaðir til að fara með þá í geld­ingu.“

Krist­ín seg­ir að læðan Púkarófa hafi komið í heim­inn í lón­inu í Hafnar­f­irði og hafi verið villikött­ur næst­um alla ævi, eða í 15 ár.

„Ég kynnt­ist henni fyr­ir sjö árum þegar ég byrjaði að gefa villikött­um á gjafa­svæði mínu, en þar var hún drottn­ing­in sem réð yfir öllu. Ég heillaðist af henni, hún var svo fal­leg og sér­stök, rosa­lega stór per­sónu­leiki. Eft­ir að hafa gefið henni úti ann­an hvern dag í fimm ár, þá myndaðist smám sam­an ákveðið traust á milli mín og Púkarófu, þó að hún hafi aldrei leyft mér að snerta sig eða klappa.

Í des­em­ber fyr­ir tveim­ur árum var ákveðið að grípa inn í, því hún var með mikla hnjúska á bak­inu, en út frá þeim geta komið sýk­ing­ar og sár. Við náðum henni í felli­búr og henni var gefið ró­andi áður en dýra­lækn­ir rakaði af henni allt hár á bak­inu, til að losa hana við hnjúsk­ana. Hún var líka með þvag­færa­sýk­ingu og kom­in með gigt. Þar sem þetta var um há­vet­ur kom ekk­ert annað til greina en að fóstra Púkarófu inni á meðan hún jafnaði sig. Villikatta­sam­fé­lagið er þannig að um leið og sá kött­ur sem ræður yfir ákveðnu svæði fer í burtu, þá miss­ir hann yf­ir­ráð sín.

Þannig var það með Púkarófu, nýr villikött­ur tók henn­ar sess og hún hefði því ekki átt aft­ur­kvæmt. Ég græjaði því gesta­her­bergið mitt fyr­ir hana og þar var ég með mynda­vél til að fylgj­ast með henni. Hún var með ákveðinn stað í her­berg­inu þar sem hún faldi sig þegar ég kom inn til henn­ar með mat og til að skipta um sand, en hún sendi mér eitrað augnaráð frá felu­stað sín­um. Hún horfði á mig eins og ég væri fífl þegar ég kom með dót í bandi handa henni.“

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu sem kom út fimmtu­dag­inn 9. maí. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: