Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi bauð í fjölskylduhátíð í Salnum í Kópavogi í gær.
Mörg hundruð manns sóttu hátíðina samkvæmt tilkynningu.
Hátíðin hófst með dagskrá innandyra. Hjálmar Gíslason, stofnandi og forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins GRID, flutti ræðu og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, nemandi við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og varaþingmaður Pírata, hélt tölu. Bæði fjölluðu um hvers vegna þau styðja Höllu í komandi forsetakosningum.
Þá flutti Karlakórinn Esja þrjú lög fyrir gesti og börn úr leikritinu, Fíasól gefst aldrei upp, stigu upp á svið.
Eiginmaður Höllu, Kristján Freyr Kristjánsson, sagði nokkur orð áður en Halla steig sjálf upp á svið og ávarpaði samkomuna. Að lokum skemmti hljómsveitin VÆB gestum.
Að lokinni dagskrá var boðið upp á grillaðar pylsur utandyra, þar sem að börn léku sér á leiksvæðinu við Salinn, og Halla og Kristján spjölluðu við gesti.
„Ég er ótrúlega hrærð yfir hversu margir mættu og hafa verið að leggja framboðinu lið. Það er ómetanlegt að finna stemninguna í hópnum. Við erum í þessu saman og þessi jákvæði kraftur er algjörlega í takt við boðskap framboðsins og hvernig ég vil þjóna Íslandi sem forseti,“ er haft eftir Höllu í tilkynningu.