Mun aðeins sýna þjóðinni hollustu

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 1:14:15
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 1:14:15
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
  • default, selected

​For­seta­fund­ur Morg­un­blaðsins á Græna hatt­in­um á Ak­ur­eyri með Katrínu Jak­obs­dótt­ur var fjöl­sótt­ur, en á annað hundrað manns gerðu sér leið þangað.

Blaðamenn­irn­ir Andrés Magnús­son og Stefán Ein­ar Stef­áns­son stýrðu fund­in­um og spurðu Katrínu ým­issa spurn­inga um embætti for­seta Íslands og hvernig hún hygðist haga setu sinni í embætt­inu.

Í upp­hafi fund­ar var kynnt glæ­ný skoðana­könn­un Pró­sents þar sem fram kom að Katrín Jak­obs­dótt­ir væri í fyrsta sinn með mest fylgi allra fram­bjóðenda í könn­un­um Pró­sents.

Katrín spáði því að fylgið myndi áfram taka breyt­ing­um og tel­ur sig enn eiga meira fylgi að sækja. Stefán spurði Katrínu hvort hún teldi að hún hefði átt inni meira fylgi þegar hún tók þá ákvörðun að bjóða sig fram og þá sagði hún:

„Ég hugsaði ekki mikið um það hvernig þetta myndi þró­ast, ég lét ekki kanna það fyr­ir fram. Ég vissi ekki hvernig landið lá, enda tek­ur maður ekki svona ákvörðun nema vilja taka hana. Maður get­ur ekki reynt að sjá allt fyr­ir og ég hef nú sagt, eig­in­lega strax eft­ir að fyrstu kann­an­ir birt­ust þá var það mín spá að það yrðu mikl­ar svipt­ing­ar í skoðana­könn­un­um. Við mynd­um sjá mikl­ar breyt­ing­ar og að þetta yrðu spenn­andi kosn­ing­ar. Ég held að það sé að ræt­ast. Ég held að þetta verði mjög spenn­andi kosn­ing­ar,“ sagði Katrín.

Góð stemmning var á vel sóttum fundi Morgunblaðsins á Akureyri …
Góð stemmn­ing var á vel sótt­um fundi Morg­un­blaðsins á Ak­ur­eyri í gær­kvöldi. mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Fylg­ir ut­an­rík­is­stefnu

Katrín var ít­rekað spurð hvort hún per­sónu­lega væri með eða á móti veru Íslands í Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) en hún svaraði því ekki beint. Hún var þó áköf í svör­um sín­um um að hún myndi fylgja ut­an­rík­is­stefnu Alþing­is.

„Alþingi mót­ar ut­an­rík­is­stefn­una, Alþingi hef­ur mótað þá stefnu að Ísland skuli vera inn­an Atlants­hafs­banda­lags­ins. Sem for­sæt­is­ráðherra hef ég fylgt þeirri stefnu, sem for­seti myndi ég að sjálf­sögðu fylgja þeirri stefnu,“ sagði Katrín og bætti við:

„Eins og ít­rekað hef­ur komið fram hjá mér í þess­ari kosn­inga­bar­áttu, raun­ar ólíkt sum­um öðrum fram­bjóðend­um, þá geri ég mér grein fyr­ir því að Ísland er ekki hlut­laust land. Ísland hef­ur mótað af­stöðu og tekið af­stöðu með veru sinni í Atlants­hafs­banda­lag­inu, með stuðningi við Úkraínu sem við höf­um samþykkt á Alþingi Íslend­inga og svona mætti lengi telja.“

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Hún gekk svo enn lengra og sagði að ef rík­is­stjórn­ar­meiri­hluti yrði myndaður sem reyndi að taka Ísland úr NATO þá myndi hún vísa því til þjóðar­inn­ar.

„Segj­um sem svo að Alþingi myndaði nú nýj­an meiri­hluta og segði „við ætl­um að segja okk­ur úr Atlants­hafs­banda­lag­inu“. Ég myndi segja, er þetta ekki ákvörðun sem á að koma frá þjóðinni?“ sagði hún og upp­skar lófa­klapp frá fund­ar­gest­um.

Í umræðum um hlut­verk for­seta á alþjóðavett­vangi við að kynna ís­lenskt at­vinnu­líf sagði hún að það væri vissu­lega hlut­verk for­seta að markaðssetja ís­lensk fyr­ir­tæki.

„Mér finnst það hluti af skyld­um for­set­ans að greiða fyr­ir ís­lensku at­vinnu­lífi. Að sjálf­sögðu beit­ir for­set­inn sinni dómgreind þar,“ sagði hún.

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Stefán spurði þá hvort hún myndi greiða fyr­ir opn­un úti­bús Sam­herja er­lend­is.

„Það kem­ur bara til kasta for­seta hverju sinni að leggja á það mat hversu langt á að ganga,“ sagði hún.

En hvernig met­ur þú þetta til­tekna dæmi?

„Það þýðir ekk­ert að ræða framtíðar­verk­efni for­set­ans í viðteng­ing­ar­hætti,“ sagði hún og upp­skar mikið klapp frá fund­ar­gest­um.

Reynsl­an skipt­ir máli

Andrés rakti orð þeirra sem hafa gagn­rýnt hana fyr­ir reynslu sína úr stjórn­mál­um og spurði hana hvort það væri vanda­mál hversu marg­ir litu þá horn­auga sem hefðu reynslu úr stjórn­mál­um. Katrín sagði að ís­lenskt lýðræðis­sam­fé­lag væri byggt á því að fólk byði sig fram til starfa á sviðum eins og sveit­ar­stjórn­arstig­inu og á Alþingi og að fólk kysi í kosn­ing­um.

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

„Mér finnst um­talið á köfl­um vera með þeim hætti að ég held að það virki ekki mjög aðlaðandi að fara í stjórn­mál,“ sagði hún og út­skýrði að hún þekkti fólk sem hefði hætt við að gefa kost á sér á ýms­um sviðum stjórn­mál­anna vegna þess hvernig umræðan er um fólk sem gef­ur kost á sér.

Af öðrum mál­um á fund­in­um sagði hún skipta miklu máli að varðveita ís­lenska tungu, menn­ingu og sögu. Aðspurð hvort hún myndi nota kyn­hlut­laust mál­far eða hefðbundið sagði hún að hún myndi nota hvort tveggja.

Hef­ur ekki svikið þjóðina

Opnað var fyr­ir spurn­ing­ar úr sal og þá spurði einn fund­ar­gesta hana út í reynslu henn­ar úr stjórn­mál­um og hvernig hún gæti nýst henni. Katrín sagði skipta máli að hafa reynsl­una til að skilja strauma stjórn­mála sam­tím­ans og einnig til þess að skilja hjart­slátt þjóðar­inn­ar.

Ann­ar fund­ar­gesta spurði þá út í gagn­rýni sumra vinstrimanna um að hún hefði svikið vinstri­menn í land­inu.

„Ef ég teldi að ég hefði svikið þjóðina þá væri ég ekki að gefa kost á mér í þetta embætti. Ég held að fólk hafi kynnst mér ágæt­lega sem stjórn­mála­manni og viti ósköp vel að í stjórn­mál­um myndi ég alltaf gera það sem í raun og veru er gagn­rýnt mest, það er að segja að leita lausna, leita mála­miðlana, því að þannig virka lýðræðis­sam­fé­lög.“

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Stefán bað hana þá um að svara því nán­ar hvort hún hefði svikið vinstri­menn og þá sagði hún að vinstri­menn væru líka hluti af þjóðinni.

„For­seti, ég ætla að leyfa mér að segja þetta, hans holl­usta er bara ein og hún er við þjóðina. Mér finnst stóra spurn­ing­in vera, hvað treysti ég mér til að segja um það og þá segi ég, ég treysti mér til að sýna eng­um holl­ustu nema þjóðinni,“ sagði Katrín.

Ekk­ert sér­stakt norðan­fylgi

Fengn­ir voru tveir álits­gjaf­ar í upp­hafi fund­ar til að rýna könn­un Pró­sents og spá í spil­in um kom­andi kosn­ing­ar. Að þessu sinni voru það þau Þór­hall­ur Jóns­son, versl­un­ar­maður á Ak­ur­eyri, og Kristrún Lind Birg­is­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Ásgarðs.

Þór­hall­ur sagði niður­stöðurn­ar úr könn­un Pró­sents alls ekki koma sér á óvart, að því leyti að Katrín leiddi. Kristrún tók und­ir það með hon­um og sagði ljóst að al­var­an væri tek­in við í for­seta­kosn­ing­un­um og með því mynd­um við sjá veld­is­vöxt í fylgi fram­bjóðenda.

Þór­hall­ur sagði að fram­bjóðend­ur hefðu haldið opna fundi á Ak­ur­eyri í síðustu viku og að þeir hefðu all­ir verið álíka vel sótt­ir.

„200-300 manns sem mættu á flesta staði þannig að við sjá­um ekk­ert og ég heyri ekk­ert af­ger­andi fylgi ein­hvers hér – norðan­fylgi,“ sagði Þór­hall­ur, spurður hvort greina mætti meira fylgi meðal ákveðinna fram­bjóðenda á Ak­ur­eyri.

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve

Einn for­seta­fund­ur eft­ir

Kristrún sagði að það hefði að ein­hverju leyti skort al­vöru­svör frá fram­bjóðend­um og sagði mik­il­vægt að velja for­seta sem hægt væri að treysta á þegar í harðbakk­ann slær. Hún taldi að enn meiri breyt­ing­ar væru fram und­an í fylgi fram­bjóðenda. Hún sagði að hún teldi að Katrín Jak­obs­dótt­ir myndi sigra í kosn­ing­un­um en að Halla Tóm­as­dótt­ir myndi enda í öðru sæti, eins og árið 2016.

„Þegar fólk fer að tala sam­an um al­vöru­hlut­ina þá vill fólk fá al­vöru­svör,“ sagði hún og út­skýrði að það væri ekki nóg að vera með fal­leg mynd­bönd. Það þyrfti að vera inni­stæða fyr­ir því sem fram­bjóðend­ur væru að segja.

Aðeins einn for­seta­fund­ur er eft­ir í hring­ferðinni en hann verður á fimmtu­dag­inn, 23. maí, á Park Inn by Radis­son í Reykja­nes­bæ með Höllu Tóm­as­dótt­ur. Sá fund­ur verður klukk­an 19.30 eins og aðrir for­seta­fund­ir Morg­un­blaðsins.

mbl.is/​Brynj­ólf­ur Löve
mbl.is

Bloggað um frétt­ina