Ein vika í kosningar: Línurnar teknar að skýrast

Samsett mynd/mbl.is/Brynjólfur Löve

Lín­urn­ar eru farn­ar að skýr­ast í bar­átt­unni um Bessastaði þegar aðeins vika er til kosn­inga. Þó geta enn orðið tölu­verðar breyt­ing­ar á fylgi fram­bjóðenda í kom­andi viku. Ekk­ert bend­ir til þess að fólk muni kjósa taktískt gegn Katrínu Jak­obs­dótt­ur.

Þetta seg­ir Eva Heiða Önnu­dótt­ir stjórn­mála­fræðing­ur í sam­tali við mbl.is.

Er hægt að segja til um það hvaða fram­bjóðend­ur eru lík­leg­ast­ir til þess að sigra í kosn­ing­un­um?

„Ég myndi halda að miðað við kann­an­ir að það er Katrín Jak­obs­dótt­ir aug­ljós­lega, og Halla Tóm­as­dótt­ir gæti verið að bæta við sig. Ef maður horf­ir á Bald­ur [Þór­halls­son] þá hef­ur hans fylgi staðið nokk­urn veg­inn í stað.

Þannig að miðað við kann­an­ir und­an­farið – auðvitað á hann séns – þá myndi ég segja Katrín og Halla Tóm­as­dótt­ir, bara út af því að henn­ar fylgi er búið að vera svo mikið upp á við. Og Halla Hrund að tapa [fylgi). Ætli það sé ekki ör­ugg­ast að segja að það eru þess­ir fjór­ir sem geta mögu­lega tekið vinn­ing­inn eða verið ná­lægt því,“ seg­ir Eva.

Má bú­ast við svipt­ing­um á kjör­dag

Hún ít­rek­ar að bar­átt­an sé ekki búin og að erfitt sé að segja til um það hver sigri.

Mikl­ar svipt­ing­ar hafa orðið áður á kjör­degi en sem dæmi má nefna að sam­kvæmt könn­un Gallup degi fyr­ir kosn­ing­ar árið 2016 þá mæld­ist Guðni Th. Jó­hann­es­son með 44,6% fylgi en fékk 39,1% fylgi í kosn­ing­un­um degi seinna. Halla Tóm­as­dótt­ir mæld­ist með 18,6% fylgi degi fyr­ir kosn­ing­ar en fékk upp úr kjör­köss­um 27,9%.

Má bú­ast við álíka mun á niður­stöðunum sjálf­um og könn­un­um í ár?

„Það er rosa­lega erfitt að spá fyr­ir um það en mitt svar er já, við meg­um al­veg bú­ast við því,“ seg­ir hún.

Hún út­skýr­ir að það sé ekki vegna þess að kann­an­ir séu rang­ar held­ur bara vegna þess að fylgið sé á mun meiri hreyf­ingu held­ur en í Alþing­is­kosn­ing­um, þar fylgið er fast­ar í skorðum.

„Fólk er að máta sig við hinn og þenn­an fram­bjóðand­ann og tek­ur svo end­an­lega ákvörðun á kjör­dag. Þess­ar kann­an­ir sem voru í aðdrag­anda kosn­inga fyr­ir átta árum síðan voru ekki rang­ar, fólk var bara að skipta um skoðun al­veg þangað til að það mætti í kjör­klef­ann,“ seg­ir hún.

Eva Heiða Önnudóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
Eva Heiða Önnu­dótt­ir, pró­fess­or við Há­skóla Íslands. mbl.is/​Golli/​Kjart­an Þor­björns­son

Halla kannski enn að auka fylgið eins og síðast

Það hef­ur oft verið talað um það að Halla Tóm­as­dótt­ir hafi toppað á vit­laus­um tíma árið 2016. Er það öðru­vísi núna?

„Það sér ekki enn fyr­ir end­ann á því hvort að hún sé búin að toppa. Ég man að nokkr­um dög­um fyr­ir kosn­ing­ar fyr­ir átta árum síðan, þegar hún var að hækka svona mikið í könn­un­um síðustu dag­ana, að ég og koll­eg­ar mín­ir hugsuðum: „Heyrðu hún gæti nú bætt tölu­vert við sig“. Það var því að hún virt­ist vera á svo miklu flugi, hún var að hækka í könn­un eft­ir könn­un í síðustu vik­unni. Hvernig teng­ist þetta kosn­ing­un­um núna?“ spyr hún og svar­ar því sjálf:

„Þetta teng­ist að því leyti að nú hugsa ég að kannski er hún ekk­ert búin að toppa, kannski er hún enn að hækka eins og síðast.“

Ekk­ert bend­ir til taktískra kosn­inga

Umræða hef­ur verið um það hvort að fólk muni kjósa taktískt í þess­um kosn­ing­um. Það er að segja að fólk muni ekki kjósa sinn upp­á­halds fram­bjóðanda held­ur kjósa ákveðinn fram­bjóðanda til að koma í veg fyr­ir ann­an fram­bjóðanda, eins og til dæm­is Katrínu. Eva seg­ir ekk­ert benda til þess að svo verði.

„Mér finnst ekk­ert benda til þess að það verði mik­il strategísk kosn­ing. Alla­vega ef hún verður þá eru ekki mikl­ar lík­ur á því að það muni hafa áhrif á úr­slit­in og ástæðan er sú að þau eru svo mörg sem eru í öðru sæti á eft­ir Katrínu. Þannig það er ekki einn aug­ljós kost­ur að kjósa ef fólk vill kjósa gegn Katrínu,“ seg­ir Eva.

mbl.is