Á morgun ganga landsmenn að kjörborðinu og velja sjöunda forseta lýðveldisins. Mbl.is fór á dögunum í Kringluna og ræddi við menn um það hver myndi fá þeirra atkvæði.
Agatha Rún Karlsdóttir kveðst vera nokkuð viss um það hver fái hennar atkvæði.
„Ég er svolítið að hallast að Höllu Tómasdóttur,“ segir Agatha í samtali við mbl.is.
Agatha er ekki mjög pólitísk en hún sá kappræðurnar á Ríkisútvarpinu og fannst Halla hafa staðið sig vel. Þar að auki hefur hún tekið púlsinn á vinafólki sem hefur góða hluti að segja um Höllu Tómasdóttur.
Lovísa Lára Halldórsdóttir er óákveðin en hún mun horfa á kappræður Ríkisútvarpsins.
Eru einhverjir frambjóðendur sem heilla þig meira en aðrir?
„Það eru nokkrir sem heilla ekki en þetta eru bara svo margir frambjóðendur að maður veit ekki alveg hvert maður ætlar að fara,“ segir Lovísa og hlær en bætir við:
„Ég held að þetta muni koma á seinustu metrunum hjá mér.“
Gréta Þórunn Rúnarsdóttir og Hilmir Snær Þorvaldsson voru á vappinu í Kringlunni og þau eru nokkurn veginn búin að ákveða sig.
„Ég er að laðast að Höllu Tómasdóttur,“ segir Gréta og Hilmir tekur undir en bætir við að hann eigi eftir að kynna sér frambjóðendur aðeins meira.
Þau fljúga til útlanda á morgun og munu því kjósa utankjörfundar.
Hanna Sif Gunnarsdóttir er að verða búin að ákveða sig og segir hún að Halla Hrund Logadóttir muni líklega fá atkvæðið sitt.
Er eitthvað sem gæti breytt því fram að kjördag?
„Að mínu mati þá vil ég persónulega ekki fá Katrínu Jakobsdóttir í forsetaembættið, hreinlega af því að hún yfirgaf stöðu sína á Alþingi. Mér fannst það vanræksla af hennar hálfu,“ segir Hanna.
Hún kveðst ætla að kjósa taktískt í kosningunum gegn Katrínu en er einnig sammála Höllu Hrund um hin ýmsu málefni.