„Bara vel, þetta er náttúrulega búið að vera alveg rosa gaman. Þetta er búinn að vera ofboðslega fjölbreyttur hópur sem hefur unnið með mér að mínu framboði og mörg hundruð manns um land allt. Ég held að það séu bara mjög falleg vinasambönd að verða til í kringum þessa kosningabaráttu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi spurð að því hvernig dagurinn leggist í hana.
Blaðamaður náði tali af Katrínu þegar hún var að kjósa í Hagaskóla fyrir stundu.
„Við erum búin að leggja mikla áherslu á að vera með jákvæðni að leiðarljósi, gleði og stemningu og það hefur sannarlega gengið eftir. Þannig að nú verður bara lokadagurinn og við vorum að gefa birkihríslur í gær og erum búin að vera að dreifa bréfum til fyrstu kjósenda þar á undan. Í dag standa allir vaktina í kosningakaffi um land allt þannig að þetta verður bara skemmtilegur dagur,“ segir hún.
Innt eftir því hvort það sé eitthvað sem henni hafi fundist einkenna baráttuna ítrekar Katrín að framboð hennar hafi lagt upp með fyrrnefnda sýn á kosningarnar.
„Baráttan er auðvitað búin að vera talsvert löng og ströng og kannski meiri athygli á henni en ég átti endilega von á í upphafi. En það sem mér hefur alla vega fundist einkenna mína baráttu er að við höfum valið það að vera mjög mikið í raunheimum og halda marga fundi. Við náðum að halda 60 fundi og viðburði hringinn í kringum landið, ég er mjög stolt af því og það hefur verið það skemmtilegasta myndi ég segja.“
Þá segist Katrín vera bjartsýn fyrir kvöldinu.
„Ég held þetta verði spennandi en fyrst og fremst er ég mjög stolt af minni baráttu og því fólki sem hefur staðið þá vakt með mér. Þannig að ég fer mjög sátt inn í kvöldið og svo kemur þetta bara í ljós, ég held þetta verði mjög spennandi.“
Spurð að lokum hvert verði hennar fyrsta verk, þó ekki embættisverk, þegar baráttunni ljúki svarar Katrín því til að hún hlakki mest til að fara að elda mat heima hjá sér.
„Það segi ég bara alveg einlæglega frá hjartarótum,“ segir hún og hlær.