„Við erum í Björtuloftum og við horfum bjart fram á veginn. Við erum búin að vera að einbeita okkur að því að vinna síðustu 55 daga. Nú ætlum við að fagna og hafa góða og ánægjulega stund saman,“ segir Kristján Freyr Kristjánsson, eiginmaður Höllu Hrundar Logadóttur.
Kristján ræddi við blaðamann mbl.is í kosningavöku Höllu Hrundar í Hörpu, stuttu áður en fyrstu tölur voru kynntar.
Hann segir að þegar Halla Hrund hafi boðið sig fyrst fram hafi mörgum þótt það skrýtinn leikur.
„Nokkrum vikum seinna vorum við með hæsta fylgi sem nokkur hefur fengið í könnununum.“
Í síðustu viku fyrir kosningar hafi Halla Hrund síðan mælst í efstu þremur sætunum.
„Mér líður alveg ótrúlega vel. Við erum búin að vera að vinna að þessari baráttu í 55 daga. Við erum búin að hitta örugglega hátt í 30 þúsund manns,“ segir Kristján.
„Á nánast öllum viðburðum sem við höfum farið á hefur verið fullt út úr dyrum. Fólk hefur tekið okkur ótrúlega vel. Við erum búin að vera með hundruð sjálfboðaliða. Okkur líður eins og sigurvegarar, sama hvernig þetta fer. Við erum vongóð um að þetta fari rétt.“