Táningur frá Tjetjeníu hefur verið handtekinn af frönsku leyniþjónustunni. Hann er grunaður um að hafa lagt á ráðin hryðjuverkaárás á fótboltaleik sem fara á fram á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Táningurinn er sagður hafa lagt á ráðin hryðjuverkaárás af „íslamskri fyrirmynd“. Hann hafi ætlað sér að ráðast á áhorfendur, öryggisgæslu og að deyja sem píslarvottur.
Í tilkynningu frá leyniþjónustu Frakklands (DGSI) segir að átján ára maður frá Tjetjeníu hafi verið handtekinn í bænum Saint-Étienne í suðausturhluta Frakklands.
DGSI sagði þetta einnig vera fyrstu árásina af þessu tagi sem komið hefur verið í veg fyrir í tengslum við Ólympíuleikana.
Táningurinn er sagður hafa ætlað að ráðast á Geoffroy-Guichard leikvanginn í Saint-Étienne á meðan fótboltaleikur stæði þar yfir.
Vænta má að um 10 milljón manns og um 10.000 keppendur heimsæki Frakkland í tengslum við Ólympíuleikana sem hefjast þann 26. júlí og standa yfir til 11. ágúst. Leikarnir verða að mestu haldnir í París en að einhverju leyti utan borgarinnar.