„Þetta er held ég búið að vera allra mesta ævintýri sem ég hef nokkurn tímann lent í á ævinni og mér var sagt einmitt fyrir fram að ég myndi væntanlega fá tveggja til þriggja ára lífsreynslu á þessum tveimur mánuðum og það hefur eiginlega verið þannig,“ segir Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við blaðamann á kjörstað en hún greiddi atkvæði sitt í Fossvogsskóla.
„Að fara um landið og heyra í fólkinu, heyra eins og ég segi vonir og væntingar fólks og hvað fólk vill í þessu samfélagi. Það hefur verið alveg afskaplega dýrmætt og lærdómsríkt. Þetta er einn áhugaverðasti ferill sem ég hef tekið þátt í á lífsleiðinni. Þvílík lærdómsvegferð,“ bætir hún við spurð út í það hvernig kosningabaráttan hafi verið.
Innt í framhaldinu eftir því hvort eitthvað eitt hafi staðið upp úr í baráttunni segir Helga það helst vera allar þessar snertingar við fólk út um allt land.
„Einnig mikill stuðningur, gleði og hlýja sem ég fann fyrir. Þannig að þetta mun verma mig alla tíð.“
En hvernig lítur dagurinn og kvöldið út hjá þér?
„Annað hvort er ég á fótboltaleik hjá minni yngstu á Hvolsvelli eða fer á opnun á Listahátíð. Það er hreinlega ekki búið að ákveða það enn þá því þetta er eiginlega á sama tíma. Venjulega fylgi ég stúlkunni alla leið svo það er annað hvort það en svo verð ég bara með þetta ofsalega rólegt og gott í kvöld,“ segir Helga sem ætlar að bjóða nánustu fjölskyldu og vinum heim.
Þá segir hún næstu daga fara í það að hlaða orkutankinn á ný.
„Þetta er búið að vera meiri sprettur en mig hefði grunað þannig að ég held að maður verði aðeins að fara að hlaða eitthvað sem kallast batterí en að sama skapi hefur þessi gleði, sem hefur orðið til á þessari vegferð, lyft manni upp og gefið manni aukna orku þannig að ég hlakka til að vinna úr þessu öllu saman.“