„Þetta mun verma mig alla tíð“

Helga Þórisdóttir greiddi atkvæði sitt í Fossvogsskóla fyrr í morgun.
Helga Þórisdóttir greiddi atkvæði sitt í Fossvogsskóla fyrr í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er held ég búið að vera allra mesta æv­in­týri sem ég hef nokk­urn tím­ann lent í á æv­inni og mér var sagt ein­mitt fyr­ir fram að ég myndi vænt­an­lega fá tveggja til þriggja ára lífs­reynslu á þess­um tveim­ur mánuðum og það hef­ur eig­in­lega verið þannig,“ seg­ir Helga Þóris­dótt­ir for­setafram­bjóðandi í sam­tali við blaðamann á kjörstað en hún greiddi at­kvæði sitt í Foss­vogs­skóla. 

„Að fara um landið og heyra í fólk­inu, heyra eins og ég segi von­ir og vænt­ing­ar fólks og hvað fólk vill í þessu sam­fé­lagi. Það hef­ur verið al­veg af­skap­lega dýr­mætt og lær­dóms­ríkt. Þetta er einn áhuga­verðasti fer­ill sem ég hef tekið þátt í á lífs­leiðinni. Því­lík lær­dóm­s­veg­ferð,“ bæt­ir hún við spurð út í það hvernig kosn­inga­bar­átt­an hafi verið. 

Helga ásamt eiginmanni sínum Theodóri Jóhannssyni.
Helga ásamt eig­in­manni sín­um Theo­dóri Jó­hanns­syni. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Snert­ing­ar við fólk um land allt

Innt í fram­hald­inu eft­ir því hvort eitt­hvað eitt hafi staðið upp úr í bar­átt­unni seg­ir Helga það helst vera all­ar þess­ar snert­ing­ar við fólk út um allt land. 

„Einnig mik­ill stuðning­ur, gleði og hlýja sem ég fann fyr­ir. Þannig að þetta mun verma mig alla tíð.“

En hvernig lít­ur dag­ur­inn og kvöldið út hjá þér?

„Annað hvort er ég á fót­bolta­leik hjá minni yngstu á Hvols­velli eða fer á opn­un á Lista­hátíð. Það er hrein­lega ekki búið að ákveða það enn þá því þetta er eig­in­lega á sama tíma. Venju­lega fylgi ég stúlk­unni alla leið svo það er annað hvort það en svo verð ég bara með þetta ofsa­lega ró­legt og gott í kvöld,“ seg­ir Helga sem ætl­ar að bjóða nán­ustu fjöl­skyldu og vin­um heim.

Helga og Theodór mæta á kjörstað.
Helga og Theo­dór mæta á kjörstað. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Þá seg­ir hún næstu daga fara í það að hlaða orkutank­inn á ný.

„Þetta er búið að vera meiri sprett­ur en mig hefði grunað þannig að ég held að maður verði aðeins að fara að hlaða eitt­hvað sem kall­ast batte­rí en að sama skapi hef­ur þessi gleði, sem hef­ur orðið til á þess­ari veg­ferð, lyft manni upp og gefið manni aukna orku þannig að ég hlakka til að vinna úr þessu öllu sam­an.“

mbl.is