Gífurlegur fjöldi fólks hefur safnast saman á kosningavöku Höllu Tómasdóttur í Grósku og ræddu blaðamenn mbl.is við kampakáta gesti um tölurnar sem berast nú upp úr kjörkössum.
Guðmundur Birgisson er staddur á kosningavöku Höllu Tómasdóttur í Grósku og er ánægður með tölurnar.
„Ég kaus Höllu en ég var að ákveða mig fram á síðustu stundu,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. Hann kveðst hafa kosið taktískt gegn ákveðnum frambjóðanda.
Er blaðamaður bar að garði var við hlið hans hún Brynja Rós Bjarnadóttir og var hún mjög ánægð með tölurnar.
Brynja kvaðst í upphafi ekki hafa ætlað að kjósa Höllu Tómasdóttur en eftir að hafa fylgst með öllum viðtölum og kappræðum þá ákvað hún að kjósa Höllu.
„Ég er mjög ánægð með þetta,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Heldur þú að hún muni standa sig vel sem forseti?
„Já, pottþétt. Ég bý sjálf á Álftanesi og ég hlakka til að fá hana í mitt sveitarfélag,“ segir hún.