Meirihluti íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur ákveðið að ekki verði skipt um nafn á sveitarfélaginu.
Íbúakosning um hvort ætti að breyta nafni sveitarfélagsins var haldin samhliða forsetakosningum í dag.
Á kjörskrá voru 462 en alls kusu 339 í íbúakosningunni, sem er 73,37% kjörsókn, að því er segir í tilkynningu á vefsíðu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Fór það svo að þau sem vildu ekki skipta um nafn voru 199. Þau sem vildu skipta um nafn voru 131. Auð og ógild atkvæði voru 9.
„Það er því ljóst að ekki verður skipt um nafn á sveitarfélaginu og er íbúum þakkað fyrir góða þátttöku,“ segir í tilkynningunni.