Næstu ár gætu slegið hitamet

Stofnunin segir hækkunina vera langt umfram spár Parísarsáttmálans.
Stofnunin segir hækkunina vera langt umfram spár Parísarsáttmálans. AFP/R. Satish Babu

Um 80% lík­ur eru á því að hita­stig jarðar muni hækka um 1,5 gráður á næstu fimm árum, að mati Sam­einuðu þjóðanna (SÞ).

Mark­mið Par­ís­arsátt­mál­ans frá 2015 var að sporna gegn hækk­un upp á 1,5 gráður næstu ára­tug­ina. Alþjóðaveður­fræðistofn­un SÞ (WMO) seg­ir aft­ur á móti að ekki hafi verið gert ráð fyr­ir þess­ari hækk­un á allra næstu árum.

Spá bresti í mark­miði sátt­mál­ans

Þannig þóttu lík­ur á því að hita­stig færi yfir 1,5 gráður á næstu árum nær núll árið 2015, en nú tel­ur stofn­un­in að um 80% lík­ur séu á því að hita­stig hækki um 1,5 gráður á næstu fimm árum.

Ko Bar­rett, full­trúi WMO, seg­ir stofn­un­ina vera að hringja neyðar­bjöll­um. 

Hún seg­ir árið 2023 vera langt um­fram heit­asta árið frá því að mæl­ing­ar hóf­ust og að tíma­bilið frá júní 2023 til maí á þessu ári hafi slegið öll met hvað hita­stig varðar. 

Þannig eru 86% lík­ur á því að árin á milli 2024 og 2028 muni slá met árs­ins 2023 og 90% lík­ur á því að hita­stigið verði hærra á tíma­bil­inu 2024 til 2028 held­ur en árin áður.

mbl.is