Mótmæla harðlega aðför ráðherra

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samtökin saka matvælaráðherra um aðför …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samtökin saka matvælaráðherra um aðför gegn réttindum borgaranna, vantreysta vísindamönnum og leggjast gegn sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) saka Bjarkeyju Ol­sen Gunn­ars­dótt­ur mat­vælaráðherra um aðför að stjórn­ar­skrár­vörðum rétt­ind­um og van­traust gagn­vart vís­inda­mönn­um með ákvörðun sinni um að veita leyfi til hval­veiða aðeins á þessu ári, að því er fram kem­ur í yf­ir­lýs­ingu sam­tak­anna.

„Ráðherra er með ákvörðun sinni í reynd – og með ólög­mæt­um hætti – að leggja áfram­hald­andi stein í götu sjálf­bærra veiða á langreyðum. Leyfið sem nú er veitt er aðeins til eins árs, í ber­högg við beiðni Hvals um út­gáfu veiðileyf­is til lengri tíma og stjórn­ar­skrár­var­in at­vinnu­rétt­indi hlutaðeig­andi fyr­ir­tæk­is.“

Til­kynnt var í dag að mat­vælaráðherra hefði ákveðið að veita Hval hf. leyfi til veiða á 128 langreyðum á þessu ári. Full­yrðir SFS að mat­vælaráðherra með ákvörðun sinni gengið gegn ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar með því að gefa út leyfi til veiða á færri langreyðum en 161 dýri eins og vís­inda­menn stofn­un­ar­inn­ar hafa lagt til.

„Ekki verður á ann­an veg ályktað en að með þeirri ákvörðun sé ráðherra að lýsa yfir van­trausti á Haf­rann­sókna­stofn­un og sér­fræðinga þeirr­ar stofn­un­ar. Það er mikið um­hugs­un­ar­efni,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Þá kveðst SFS „mót­mæla harðlega þess­ari aðför ráðherr­ans að mik­il­væg­um stjórn­ar­skrár­vörðum rétt­ind­um borg­ar­anna, van­trausti ráðherr­ans gagn­vart sér­fræðing­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar og and­stöðu ráðherr­ans við sjálf­bæra nýt­ingu sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.
Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir mat­vælaráðherra. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Stjórn­völd verði horfa til vís­inda­legra for­sendna

Máli sínu til stuðnings bend­ir SFS á að já­kvæðar um­sagn­ir Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, Fiski­stofu og Mat­væla­stofn­un­ar um út­gáfu leyf­is til veiða á langreyðum er um­sókn Hvals hf. um veiðileyfi var til meðhöndl­un­ar hjá ráðuneyt­inu. „Sú staðreynd ger­ir ákvörðun ráðherra því enn ámæl­is­verðari.“

Er Bjarkey sögð senda „kald­ar kveðjur til allra þeirra sem hafa starfað af heil­ind­um og elju við veiðar á langreyðum og vinnslu hval­kjöts um ára­bil í sam­ræmi við lög og regl­ur og höfðu rétt­mæt­ar vænt­ing­ar til þess að halda því áfram.“

SFS tel­ur aug­ljóst að deil­an um veiðar á langreyðum snú­ist „ekki leng­ur um hvað sé for­svar­an­legt út frá sjálf­bærri nýt­ingu, held­ur hvað fólki finnst. Það get­ur verið erfitt að tak­ast á um til­finn­ing­ar, enda sýn­ist sitt hverj­um, eins og von­legt er. Stjórn­völd verða hins veg­ar, nú sem fyrr, að horfa til vís­inda­legra for­sendna og laga­legra krafna þegar kem­ur að veiga­mikl­um ákvörðunum um nýt­ingu auðlinda, veiða við Ísland, og láta um leið af sín­um eig­in til­finn­ing­um og póli­tísku skamm­tíma­hags­mun­um.“

mbl.is