Óljóst hvað Óli Björn og Jón gera

Litlar líkur eru á því að vantrauststillagan verði samþykkt. Þó …
Litlar líkur eru á því að vantrauststillagan verði samþykkt. Þó fylgjast margir með því hvað Óli Björn og Jón Gunnarsson munu gera. Samsett mynd

Ekki er vitað hvernig Óli Björn Kára­son og Jón Gunn­ars­son, þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, munu greiða at­kvæði um van­traust­stil­lögu á hend­ur Bjarkeyju Ol­sen Gunn­ars­dótt­ur mat­vælaráðherra.

Litl­ar lík­ur eru þó tald­ar á því að til­lag­an verði samþykkt.

Þing­flokks­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins var hald­inn í gær og herma heim­ild­ir mbl.is að þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins séu litlu nær um það hvernig Óli og Jón munu kjósa. Báðir hafa þeir verið ósátt­ir við fram­ferði Bjarkeyj­ar í hval­veiðimál­inu. 

Hvorki Óli Björn né Jón hafa verið til­bún­ir að tjá sig við rit­stjórn mbl.is um það hvernig þeir hyggj­ast greiða at­kvæði.

Umræða á Alþingi upp úr kl. 11

Til­lag­an verður tek­in til umræðu á Alþingi upp úr klukk­an 11 í dag og svo er gert ráð fyr­ir því að kosið verði um hana um há­deg­is­bilið.  

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, þing­flokks­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í sam­tali við Vísi í gær að til­lag­an yrði felld. Þá hef­ur Ingi­björg Isak­sen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar, sagt í sam­tali við mbl.is að all­ir þing­menn Fram­sókn­ar muni verja Bjarkeyju van­trausti. 

Stjórn­ar­andstaðan styður til­lög­una

Miðflokk­ur­inn lagði fram til­lög­una og hafa for­svars­menn allra stjórn­ar­and­stöðuflokka greint frá því að þeir muni styðja hana.

Ástæða til­lög­unn­ar er fram­ganga Bjarkeyj­ar í hval­veiðimál­inu, en vegna óvenju langs tíma til leyf­is­veit­ing­ar af hálfu mat­vælaráðuneyt­is­ins stefn­ir allt í að eng­in vertíð verði hjá Hvali hf. í sum­ar.

mbl.is