Sakar Bjarkeyju um skeytingarleysi

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir Bjarkeyju …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur feta í spor Svandísar Svavarsdóttur.

Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), seg­ir Bjarkeyju Ol­sen Gunn­ars­dótt­ur mat­vælaráðherra feta í spor Svandís­ar Svavars­dótt­ur með því að tálma lög­mæta at­vinnu­starf­semi með töf­um á út­gáfu leyf­is til hval­veiða og seg­ir ríkið geta verið bóta­skylt.

Í ít­ar­leg­um pistli á vef SFS rek­ur hún málsmeðferð í tengsl­um við veiðileyfi Hvals hf. og seg­ir „óháð því hvort fólk sé hlynnt eða and­vígt veiðum á langreyðum, þá hljóta all­ir að skilja mik­il­vægi þess að lög og stjórn­ar­skrár­var­in rétt­indi séu virt og að eft­ir þeim sé farið.“

Rifjar hún upp þá skoðun laga­pró­fess­ors­ins Sig­urðar Lín­dal að Íslend­ing­ar ættu frek­ar að byrja á því að fara eft­ir stjórn­ar­skránni áður en farið væri í að breyta henni.

„Þessi skyn­sama at­huga­semd Sig­urðar Lín­dal hef­ur skotið upp í huga mér þegar litið er til ákv­arðana tveggja ráðherra um að tálma með ólög­mæt­um hætti lög­mæta at­vinnu­starf­semi tengda hval­veiðum,“ seg­ir Heiðrún.

Bend­ir hún á að Umboðsmaður Alþing­is hafi kom­ist að þeirri niður­stöður að fyrr­ver­andi mat­vælaráðherra, Svandís Svavars­dótt­ir, braut gegn stjórn­ar­skrár­vörðum rétti Hvals þegar hún tók „for­dæma- og fyr­ir­vara­lausa ákvörðun“ um að fresta upp­haf hval­veiðivertíðar­inn­ar í fyrra með dags fyr­ir­vara. Hef­ur rík­is­lögmaður fengið það verk­efni að meta um­fang bóta­skyldu rík­is­ins vegna þeirr­ar ákvörðunar.

„Nýr mat­vælaráðherra hef­ur nú fetað í spor fyrri mat­vælaráðherra og tálmað lög­mæt­an at­vinnu­rekst­ur Hvals. Líkt og ráðherra lét sjálf­ur hafa eft­ir sér bar hon­um lög­um sam­kvæmt að gefa út leyfi til veiðanna. Lög­gjaf­inn hafði með öðrum orðum lagt á hann þá skýru at­hafna­skyldu að gefa út leyfi til veiða. Og það gerði og ráðherr­ann, en aðeins til mála­mynda. Leyfið var gefið út með þannig skil­yrðum að það nýt­ist ekki leyf­is­haf­an­um. Öllum má vera ljóst að þannig kom­ast ráðherr­ar ekki hjá því að virða stjórn­ar­skrár­var­in rétt­indi borg­ar­anna.“

Aug­ljóst ólög­mæti

„Heim­ild­ir manna til að stunda áfram þau störf sem þeir hafa tekið upp og byggja fjár­hags­lega af­komu á njóta bæði vernd­ar at­vinnu­frels­isákvæðis 75. gr. stjórn­ar­skrár og eign­ar­rétt­ar­á­kvæðis 72. gr. stjórn­ar­skrár. Oft er um að ræða störf sem menn hafa fengið sér­stakt leyfi stjórn­valda til að stunda eða hafa sér­staka op­in­bera lög­gild­ingu til. Um þetta fjallaði Björg Thor­ar­en­sen, hæsta­rétt­ar­dóm­ari og fyrr­um laga­pró­fess­or, meðal ann­ars í rit­inu Stjórn­skip­un­ar­rétt­ur – Mann­rétt­indi,“ skrif­ar Heiðrún.

Vek­ur hún at­hygli á því að Hval­ur hafi upp­fyllt öll skil­yrði sem lög leggja á þá sem hyggj­ast stunda hval­veiðar, enda hafi fé­lagið verið með slíkt leyfi um ára­bil. Í ljósi þessa hafði Hval­ur rétt­mæt­ar vænt­ing­ar um út­gáfu leyf­is vegna hval­veiðitíma­bils­ins í ár þar sem eng­ar breyt­ing­ar hafa verið gerðar á lög­um er snúa að hval­veiðum. Jafn­framt hef­ur ekk­ert breyst sem kalli á breytta málsmeðferð auk þess sem öll gögn hafi legið fyr­ir tím­an­lega og því eng­in ástæða til að tefja út­gáfu leyf­is­ins.

Tel­ur Heiðrún Lind ljóst að ákvörðun Bjarkeyj­ar um að veita ekki leyfi til lengri tíma en eins árs hafi verið ólög­mæt.

Óeðli­leg­ar taf­ir

„Ekki verður hjá því kom­ist að líta einnig til þess að taf­ir á af­greiðslu leyf­is urðu þess vald­andi að Hval­ur gat ekki nýtt það leyfi sem fé­lagið hafði vænt­ing­ar um að yrði gefið út. Sam­kvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/​1993 skulu ákv­arðanir í mál­um tekn­ar svo fljótt sem unnt er. Í þessu felst áskilnaður um að aldrei megi vera um órétt­lætt­an drátt á af­greiðslu máls að ræða.“

Heiðrún Lind full­yrðir að eng­in réttaró­vissa hafi verið í mál­inu og bar ráðherra því að gefa út leyfi til veiða á langreyðum. Vís­ar hún meðal ann­ars til yf­ir­lýs­ing­ar Bjarkeyj­ar þess efn­is.

„Þegar af þeim sök­um er ekk­ert sem rétt­lætt get­ur málsmeðferð sem tel­ur tæp­lega fimm mánuði. […] Í þessu sam­hengi má hafa í huga að ríkið get­ur bakað sér bóta­ábyrgð þegar órétt­mæt­ar taf­ir verða á af­greiðslu mála, s.s. þegar taf­ir valda því að málsaðili verður sann­an­lega fyr­ir fjár­tjóni sem taf­irn­ar hafa valdið.“

Í ljósi þess hvernig hafi verið staðið að úr­vinnslu hval­veiðimáls­ins seg­ir Heiðrún Lind stöðu stjórn­ar­skrár­var­inna rétt­inda borg­ar­anna verða um­hugs­un­ar­efni.

„Kom­ist ráðherra einu sinni upp með að virða þessi rétt­indi að vett­ugi, án nokk­urra af­leiðinga, mun næsti ráðherra fylgja í kjöl­farið. Og það hef­ur nýr mat­vælaráðherra nú gert. En hvers vegna ætti þetta skeyt­ing­ar­leysi að hætta þarna? Hvaða rétt­indi fólks eða fyr­ir­tækja verða fót­um troðin næst? Eign­ar­rétt­ur­inn? Jafn­rétti? Frjáls­ar skoðanir? Frelsið?“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: