Alvarleg frávik í eldisstöðinni í Tálknafirði

Matvælastofnun segir fleiri frávik hafa verið í eldisstöð Arctic Smolt …
Matvælastofnun segir fleiri frávik hafa verið í eldisstöð Arctic Smolt á Tálknafirði. mbl.is/Guðlaugur

Mat­væla­stofn­un ger­ir at­huga­semd­ir við fleiri þætti í fisk­eld­is­stöð Arctic Smolt ehf., dótt­ur­fé­lags Arctic Fish, í Tálknafirði og vek­ur at­hygli í eft­ir­lits­skýrslu vegna stroks úr eld­is­stöðinni á átta frá­vik­um, þar af eru sex flokkuð sem al­var­leg frá­vik.

Meðal al­var­legra frá­vika var vísað til skorts á seinni vörn­um í tengsl­um við frá­rennsli, ófull­nægj­andi viðbragðsáætl­un­ar vegna stroks og að ekki hafi verið farið eft­ir áætl­un­inni, gæðahand­bók hafi ekki verið aðgengi­leg, að ekki lægju fyr­ir upp­lýs­ing­ar um þjálf­un starfs­fólks og að innra eft­ir­lit og innri út­tekt­ir væru ófull­nægj­andi.

Máls­at­vik eru rak­in í til­kynn­ingu á vef Mat­væla­stofn­un­ar og kem­ur þar fram að stofn­un­inni hafi borist til­kynn­ing frá fyr­ir­tæk­inu 24. maí síðastliðinn um „óhapp sem leiddi til stroks eld­islax úr fisk­eld­is­stöð þeirra í Norður-Botni, Tálknafirði. […] Í kjöl­far til­kynn­ing­ar­inn­ar tók Mat­væla­stofn­un málið til rann­sókn­ar og óskaði eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um. Þau svör gáfu til­efni til frek­ari at­hug­ana og var þá tek­in ákvörðun um að fara í óboðað eft­ir­lit á staðinn til að staðfesta grun stofn­un­ar­inn­ar.“

Fór fram eft­ir­lit á staðnum 3. og 4. júní og sner­ist rann­sókn máls­ins aðallega um að yf­ir­fara búnað stöðvar­inn­ar vegna seinni varna í frá­rennsli til að koma í veg fyr­ir strok úr fiskield­is­stöðinni. Einnig var selta vatns við frá­rennsli stöðvar­inn­ar kannað og hvort hafi verið farið eft­ir verklags­regl­um í aðdrag­anda óhapps­ins og eft­ir að strok upp­götvaðist.

Greið leið út úr stöðinni

„Mat­væla­stofn­un tel­ur að ekki hafi verið til staðar nægj­an­leg­ur mann­skap­ur til þess að sinna fyrsta viðbragði í kjöl­far strokat­b­urðar en sam­kvæmt upp­lýs­ing­um voru tveir starfs­menn á svæðinu um­rætt kvöld. Mat­væla­stofn­un tel­ur að ein­ung­is hafi verið sinnt fyrstu viðbrögðum inn­an­hús en ekki gætt að stroki við frá­rennsli,“ seg­ir í til­kynn­ingu stofn­un­ar­inn­ar.

Þar seg­ir einnig að ljóst sé að fisk­eld­is­stöðin sé ekki út­bú­in seinni vörn­um í frá­rennsli úr niður­föll­um á gólfi og talið að seiði hafi haft greiða leið úr stöðinni. Talið var að 22.352 seiði hafi endað á gólfi stöðvar­inn­ar.

„Ljóst er að tölu­vert ferskvatn er fyr­ir utan stöð og lík­ur á að seiðin hafi lifað af og synt upp í Botnsá enda liðu rúm­ar 14 klst. frá strokat­b­urði þar til net voru lögð.“

Fengu fá svör

At­hygli vek­ur að í eft­ir­lits­skýrslu vegna at­viks­ins hafi starfsmaður ekki getað veitt svör við spurn­ing­um Mat­væla­stofn­un­ar.

„Óskað var eft­ir því að starfsmaður­inn myndi setj­ast niður með eft­ir­lits­mönn­um og svara spurn­ing­um. Samþykkti hann það og var farið í fund­ar­her­bergi. Farið var yfir eft­ir­lits­atriði og spurn­ing­ar lagðar fram varðandi strokat­b­urðinn þann 23. maí sl. Starfsmaður gat svarað fáum spurn­ing­um eft­ir­lits­manna og kallaði ekki eft­ir aðstoð stjórn­enda þrátt fyr­ir að eft­ir­lits­menn hafi bent hon­um á fjar­funda­búnað í fund­ar­her­berg­inu,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Gat starfsmaður­inn ekki veitt upp­lýs­ing­ar um fram­leiðslu­skýrsl­ur, þjálf­un starfs­manna eða innri út­tekt­ir.

Mat­væla­stofn­un kveðst í til­kynn­ing­unni fylgja mál­inu eft­ir og mun hafa eft­ir­lit með að unnið verði úr frá­vik­um og al­var­leg­um frá­vik­um.

mbl.is