Þingi frestað: Guðni ávarpaði þingheim

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði þingið við frestun þingfunda.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði þingið við frestun þingfunda. Skjáskot af vef Alþingis

Þing­fund­um 154. lög­gjaf­arþings var frestað skömmu eft­ir miðnætti. 

Þingið var að störf­um frá 12. sept­em­ber til 16. des­em­ber 2023 og frá 22. janú­ar til 23. júní 2024.

Þing­fund­ir voru sam­tals 131 og stóðu í rúm­ar 649 klst. Meðallengd þing­funda var 4 klst. og 55 mín. Lengsti þing­fund­ur­inn stóð í 15 klst. og 43 mín.

Sam­kvæmt til­lögu for­sæt­is­ráðherra frestaði for­seti fund­um Alþing­is til 10. sept­em­ber.

Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, flutti ávarp við frest­un þing­funda á Alþingi.

Hefð er fyr­ir því að for­seti Íslands flytji ávarp við síðustu þing­frest­un í embætt­istíð sinni eða þing­lausn­ir áður fyrr, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá embætti for­set­ans.

Í ræðu sinni þakkaði Guðni þing­mönn­um fyr­ir sam­starfið í átta ár og þá virðingu sem þing­heim­ur ber fyr­ir embætti for­seta Íslands.

Halda þurfi áfram end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar

Guðni ár­réttaði þá skoðun sína að halda þurfi end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins áfram, ekki síst með hliðsjón af þeim kafla henn­ar sem lýt­ur að völd­um og verksviði þjóðhöfðingj­ans. Þar megi til dæm­is finna ákvæði um meint vald for­seta til að veita und­anþágur auk kostnaðarsamra og úr­eltra ákvæða um verksvið hand­hafa for­seta­valds. Þá beindi for­seti því til þing­heims að æski­legt væri að setja lög um embætti for­seta Íslands, ekki síst til að tryggja stjórn­sýslu­legt sjálf­stæði þess.

Við hæfi að for­set­inn haldi ræðu 17. júní í staðinn fyr­ir for­sæt­is­ráðherra

Í ræðu sinni lagði Guðni einnig til nokkr­ar breyt­ing­ar sem taka mætti til skoðunar á af­mælis­ári lýðveld­is­ins. Nefndi hann að í ljósi ein­stakr­ar stöðu í stjórn­skip­un og sam­fé­lagi væri við hæfi að for­seti Íslands flytti ávarp til þjóðar­inn­ar á Aust­ur­velli á þjóðhátíðardag­inn 17. júní, í stað for­sæt­is­ráðherra eins og venja hef­ur verið.

Þá benti Guðni á að vel færi á því að þjóðhöfðing­inn ætti trygg­an og form­leg­an sess í Þing­valla­bæn­um sem ný­verið var gerður upp en þurfi ekki að vera gest­ur á tign­um stað, til dæm­is þegar aðra þjóðhöfðingja ber að garði.

Í lok ræðu sinn­ar óskaði Guðni ný­kjörn­um for­seta, Höllu Tóm­as­dótt­ur, velfarnaðar á vanda­söm­um vett­vangi. Þá færði hann þing­mönn­um góðar ósk­ir og lands­mönn­um öll­um kveðjur og þakk­ir fyr­ir sam­fylgd­ina.

Ræðu for­seta má lesa í heild sinni á vefsíðu embætt­is­ins for­seti.is.

mbl.is