Fyrsta helgin í júlí hefur lengi verið talin fyrsta stóra útileguhelgin. Margir hyggja á tjaldferðalög um helgina, en hvert skal halda? Eins og oft áður á að vera mjög gott veður á Suðurlandi en það kemur meðal annars fram á útileguvefnum Blika.is.
Ferðavefur mbl.is tók saman nokkur tjaldsvæði þar sem spáð er góðu veðri um helgina.
Hitinn á að fara upp í 16 stig á Laugarvatni á laugardaginn og 17 stig á sunnudaginn. Það má segja að það eigi að vera alvöru bongó á svæðinu. Tjaldsvæðið er gott enda skjólgott og hægt að koma sér fyrir í góðum lundi. Tjaldsvæðið hentar þeim sem vilja fara saman í útilegu og vilja vera nálægt sjoppu en líka þeim sem vilja vera nálægt góðum golfvelli. Auk þess er stutt í helstu náttúruperlur Suðurlands.
Það á að vera nokkuð gott veður í Hraunborgum í Grímsnesi um helgina. Á laugardaginn á að vera hálfskýjað en allt að 17 stiga hiti. Á sunnudaginn verður ekki verra veður. Það verður líklega enn betra veður á tjaldsvæðinu enda er það nokkuð skjólgott. Í raun er því lýst sem leyniparadís fyrir alla fjölskylduna enda er þar sundlaug, golfvöllur, leiksvæði, trampólín, aparóla og mínígolf svo eitthvað sé nefnt.
Það er ekki spáð yfir 12 stiga hita í Flókalundi á Vestfjörðum. Hins vegar er spáð björtu veðri og þá komast Íslendingar ansi langt. Ef fólk ætlar vestur ætti það að íhuga að tjalda í Flókalundi enda er á tjaldsvæðinu góð aðstaða fyrir alla hvort sem það eru tjöld eða fellihýsi. Hægt er að komast í rafmagn og aðstaða er fyrir uppvask.