Leggja til bann við heimavigtun bolfisks

Til stendur að herða reglur um heimavigtun uppsjávarafla og banna …
Til stendur að herða reglur um heimavigtun uppsjávarafla og banna heimavigtun bolfisks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stend­ur að banna heima­vigt­um á bol­fiski og pökkuðum upp­sjáv­ar­af­urðum sam­kvæmt drög­um að breyt­ing­um á reglu­gerð um vigt­un og skrán­ingu sjáv­ar­afla sem birt hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Þetta er í sam­ræmi við ráðlegg­ing­ar Fiski­stofu og Rík­is­end­ur­skoðun.

Í sam­ráðsgátt seg­ir að bannið sé meðal þeirra breyt­inga sem „eru til­komn­ar vegna sam­komu­lags um sam­ræmd­ar leik­regl­ur strand­ríkja varðandi fram­kvæmd vigt­un­ar, skrán­ing­ar og eft­ir­lits með upp­sjáv­ar­stofn­um (mak­ríl, kol­munna og norsk ís­lenskri vorgots­s­íld).“

Rík­in sem standa að sam­komu­lag­inu eru Ísland, Nor­eg­ur,Fær­eyj­ar, Græn­land og Bret­land, auk Evr­ópu­sam­bands­ins.

Þá upp­fyll­ir Ísland þegar flest­ar þær regl­ur sem gert er ráð fyr­ir í sam­komu­lag­inu, en frest­ur til að upp­fylla sett­ar kröf­ur er 1. janú­ar 2026.

Í sam­ræmi við at­huga­semd­ir

Í eft­ir­fylgni­s­skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar um eft­ir­lit Fiski­stofu sem birt var í maí í fyrra er rifjað upp að viðmæl­end­ur vegna út­tekt­ar­inn­ar 2018 hafi marg­ir lýst þeirri skoðun að af­nema ætti heim­ild til heima­vigt­un­ar bol­fisks þar sem hún skapaði óþarfa áhættuþætti sem tor­veldi eft­ir­lit.

Það eru aðeins upp­sjáv­ar­út­gerðir sem hafa heima­vigt­un­ar­eyfi í dag og er það vegna þess að lönd­un slíks afla fer yf­ir­leitt fram með öðrum hætti en í til­felli bol­fisks.

„Ekk­ert heima­vigt­un­ar­leyfi er nú í gildi fyr­ir vigt­un á bol­fiski en hann kem­ur þó reglu­lega í veiðarfæri við upp­sjáv­ar­veiðar sem meðafli. Heild­ar­magn þess afla árið 2022 nam 1.200 tonn­um en þá voru til sam­an­b­urðar 228.334 tonn af bol­fiski end­ur­vi­gtuð hjá vigt­un­ar­leyf­is­höf­um,“ seg­ir í eft­ir­fylgni­s­skýrsl­unni.

Afurðavigt­un tak­mörkuð til muna

Heima­vigt­un upp­sjáv­ar­afla hent­ar þar sem hann er meðal ann­ars vigtaður þegar hon­um er dælt úr veiðiskipi fyr­ir vinnslu. Í öðrum til­vik­um er afl­inn vigtaður eft­ir flokk­un en fyr­ir vinnslu, auk þess sem hann kann að vera vigtaður sem pakkaðar afurðir en þá er hann vigtaðar ásamt hrati og af­sk­urði sem fell­ur til við vinnsl­una og það lagt sam­an.

„Fiski­stofa hef­ur lengi bent mat­vælaráðuneyti og fyr­ir­renn­ur­um þess á nauðsyn þess að breyta verklagi við vigt­un upp­sjáv­ar­afla til mann­eld­is­vinnslu. Stofn­un­in tel­ur vigt­un á pökkuðum afurðum vera ótrygga og af­leita vigt­un­araðferð sem erfitt sé að hafa full­nægj­andi eft­ir­lit með miðað við nú­ver­andi reglu­verk. Að sögn stofn­un­ar­inn­ar vigta sjö af átta fyr­ir­tækj­um sem veiða upp­sjáv­ar­teg­und­ir til mann­eld­is­vinnslu afla sinn í pökkuðum afurðum.“

Vigt­un pakkaðra upp­sjáv­ar­af­urða verður hins veg­ar óheim­il nema í til­felli loðnu­hrogna, ef drög­in verða að end­an­legri reglu­gerð.

Meðferð uppsjávarafla er annars eðlis en bolfisks.
Meðferð upp­sjáv­ar­afla er ann­ars eðlis en bol­fisks. Ljós­mynd/​Síld­ar­vinnsl­an: Björn Stein­bekk

Þrátt fyr­ir hert­ar regl­ur varðandi heima­vigt­un í til­felli bol­fisks og upp­sjáv­ar­fisks er lagt til að Fiski­stofu verði heim­ilt að gefa út heima­vigt­un­ar­leyfi við lönd­un sjáv­ar­gróðurs.

Það sé þó skil­yrði að notuð sé ósjálf­virk vog.

mbl.is