Hægt er að innleiða Kveikjum neistann, verkefni sem hefur verið í grunnskóla Vestmannaeyja síðustu ár, í grunnskóla úti um allt land.
Þetta segir Svava Þórhildur Hjaltalín, verkefnastjóri hjá Kveikjum neistann, í samtali við mbl.is.
Geta önnur sveitarfélög gert samninga við ykkur [Rannsóknarsetrið menntun og hugarfar við Háskóla Íslands] og innleitt verkefnið í sína grunnskóla?
„Já, við erum í raun klár með verkefnið í 1.-3. bekk. Við erum að yfirfara handbók sem er tilbúin þannig að verkefnið er klárt og það er einfalt í framkvæmd,“ segir Svava.
Í vetur hafa þrír árgangar fylgt verkefninu í Vestmannaeyjum og hafa þeir allir náð markmiðum. Ef horft er til rannsóknarhópsins sem nú er í 3. bekk þá teljast 91% nemenda í 3. bekk læsir samkvæmt niðurstöðum mælitækisins LÆS III. Verkefnið hefur staðið yfir í þrjú ár.
Lindaskóli í Kópavogi mun innleiða verkefnið Kveikjum neistann í 1. og 2. bekk skólans á næsta ári.
Þá hafa fleiri bæjarstjórar stigið fram og lýst því yfir að þeir hyggist skoða nánar stöðu menntamála í sínum sveitarfélögum.
„Ég fagna þessari umræðu sem er komin upp á yfirborðið og það er frábært að sjá fólk stíga fram. Ég vona að það verði meira af því og að við styðjum hvert annað, tölum ekki á móti hvert öðru. Það eru börnin okkar sem skipta máli. Við erum að þessu fyrir börnin og íslenskt samfélag,“ segir hún.
Svava segir ekki mikinn kostnað vera fólginn í því að innleiða verkefnið. Hún segir aftur á móti að fjármunir sparist þar sem færri börn þurfti á sérkennslu að halda eftir að hafa farið í gegnum verkefnið.
Hún kveðst finna fyrir auknum áhuga frá sveitarfélögum sem íhuga að innleiða verkefnið og hún segir að það sé vel hægt af þeirra hálfu.
„Í svona breytingum þarf skólasamfélagið að vera með. Fólk þarf að vera með og það þarf að vilja breytingar. Það þarf að sjá hagnaðinn í því og við erum hvergi að ráðast að kennurum. Við treystum kennurum hundrað prósent og erum ekki að segja þeim hvað þeir eiga að gera. Við erum bara að rétta þeim hugmyndafræðina upp í hendurnar, hvernig er einfaldast að gera þetta,“ segir Svava.