Finnska ólympíuliðinu blöskrar svo hitinn í frönsku höfuðborginni París, þar sem setning Ólympíuleikanna stendur nú fyrir dyrum í vikulokin, að það tekur með sér eigin útbúnað til loftkælingar að heiman.
Hitastig í París fór vel yfir 30 gráður um helgina þótt í dag sé örlítið svalara en áfram er gert ráð fyrir háum hitatölum næstu daga og fram yfir setningu leikanna. Stjórnendur leikanna hafa neitað að setja upp loftkælingu í gistiaðstöðu keppenda á þeim forsendum að mengun frá slíkum búnaði brjóti í bága við losunarmarkmið heimsins í loftslagsmálum.
Er ofurkapp sett á að minnka hið svokallaða kolefnisfótspor leikanna og halda stjórnendur þeirra því fram að uppsetning aðstöðu keppnisfólks hafi haft í för með sér 47 prósenta minni losun gróðurhúsalofttegunda en hefðbundnar byggingarframkvæmdir.
Hafa þeir brugðið á það ráð að nota varmadælur til að kæla vistarverurnar eftir því sem íþróttamiðillinn L'Equipe greinir frá, en þetta þykir keppnisliðum nokkurra landa skammgóður vermir – eða kæling – og hafa því brugðið á það ráð að taka með sér eigin loftkælingar. Eru Finnar í þeim hópi.
Segir Leena Paavolainen, framkvæmdastjóri finnska liðsins, að loftkælingarmál Finnanna séu frágengin enda sé annað útilokað en að njóta kælingar á svo heitum dögum.
Verktakarnir sem önnuðust uppsetningu ólympíuþorpsins svokallaða segja herbergin, sem íþróttafólkið dvelur í, verða sex gráðum svalari en hitinn utandyra. Vissulega hefði mátt bæta loftkælingu við uppsetninguna en þar með hefði kolefnisfótsporið stækkað út fyrir þau mörk sem lagt hafi verið upp með.