Knattspyrnukonan Wendie Renard er að fara á Ólympíuleikana í París en það verður hennar tíunda stórmót með franska landsliðinu.
Renard er öflugur miðvörður og hefur unnið 37 titla á ferlinum alla með Lyon í heimalandinu en engan með franska liðinu, sem er þessa stundina númer tvö á heimslistanum.
Hún hefur spilað með franska landsliðinu frá 2011 og er fyrirliði landsliðsins og Lyon. Ólympíuleikarnir í ár verða þriðju leikarnir hennar.
Frakkland hefur ekki spilað úrslitaleik í langan tíma en oft verið nálægt því, til dæmis komst liðið í undanúrslit á EM 2022 og átta liða úrslitum á HM 2023.
„Þegar við horfum til baka á þessa leiki þá vantar okkur ekki margt en það eru smáatriðin sem senda þig heim,“ sagði Renard.
Frakkland er í A-riðli með Kanada, Kólumbíu og Nýja Sjálandi en það eru 12 lið sem taka þátt á mótinu og Frakkland er eitt sigurstranglegasta liðið.