Svona voru síðustu dagarnir: „Ég þarf viku“

Joe Biden lýsti framboði sínu loknu sunnudaginn 21. júlí.
Joe Biden lýsti framboði sínu loknu sunnudaginn 21. júlí. AFP

Joe Biden var op­in­ber­lega staðráðinn í því að halda kosn­inga­bar­áttu sinni áfram allt þar til hann til­kynnti á Twitter að hann myndi draga sig í hlé.

Síðustu dag­ar bar­átt­unn­ar benda þó til þess að hann hafi hugsað málið í ein­hvern tíma áður en hann tók í gikk­inn.

Frétta­stof­an Associa­ted Press ger­ir þess­um dög­um skil í dag.

Laug­ar­dag­inn 13. júlí, átta dög­um áður en Biden hætti í fram­boði, fór Chuck Schumer, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild­inni, í heim­sókn til Bidens í Delaware þar sem menn­irn­ir ræddu stöðuna. Schumer kvaðst koma til hans sem vin­ur sem er annt um hann. 

Féllust í faðma

Schumer hafði nokkr­um dög­um á und­an rætt við Barack Obama, Nancy Pe­losi og Hakeem Jef­fries, leiðtoga demó­krata í full­trúa­deild­inni.

Á gamla sam­lokusím­an­um sín­um hafði Schumer hringt í nær alla öld­unga­deild­arþing­menn flokks­ins og tekið á þeim púls­inn.

Á fund­in­um með Biden talaði Schumer samt sem áður ekki fyr­ir hönd allra þing­manna demó­krata, en þó margra.

Hann bað Biden um að íhuga hvað myndi ger­ast hjá demó­kröt­um á Banda­ríkjaþingi ef hann héldi áfram í fram­boði, hvað myndi ger­ast í Hæsta­rétti ef Trump yrði aft­ur for­seti og hvað yrði um arf­leifð hans.

„Ég þarf viku,“ á Biden að hafa sagt við Schumer og svo féllust þeir í faðma.

Chuck Schumer.
Chuck Schumer. AFP/​Anna Mo­neyma­ker

Trúnaðar­menn ræddu við hann sorg­mædd­ir

Ein­stak­ling­ur sem þekk­ir til fund­ar­ins og þess sem þar fór fram lýsti þessu við AP gegn nafn­leynd.

Aðrir sem ræddu við AP og voru nán­ir for­set­an­um síðustu daga fram­boðsins segja að hann hafi leitað allra kosta til þess að halda fram­boðinu á lífi.

Um síðustu helgi – jafn­vel ör­fá­um dög­um fyrr – var þó al­var­leg staða fram­boðsins orðin ljós. Skoðanakann­an­ir voru nei­kvæðar og illa gekk að safna pen­ing­um.

Þá heyrði for­set­inn lítið annað en sorg­mædd­ar radd­ir þeirra sem hann bar mesta virðingu fyr­ir og hafði unnið með ára­tug­um sam­an.

Fundaði með innsta hring á laug­ar­dag­inn

Einn ná­inn hon­um seg­ir að Biden hafi fundað með fjór­um af sín­um nán­ustu ráðgjöf­um á laug­ar­dag­inn og um kvöldið hafi hann nálg­ast niður­stöðu.

Á sunnu­dag­inn gerðust hlut­irn­ir hratt. Hann heyrði í ein­um af sín­um nán­ustu vin­um á Banda­ríkjaþingi, Jim Clyburn, og lét hann vita að hann myndi draga fram­boð sitt til baka.

Biden átti mörg sam­töl við Kamölu Harris þann dag og varði hún sjálf 10 klukku­stund­um í sím­an­um að hringja í þunga­vigt­ar­menn og þing­menn í flokkn­um til að tryggja stuðning við sig.

Hún vissi að stuðnings­yf­ir­lýs­ing frá Biden væri þýðing­ar­mik­il en hún þurfti líka að tryggja stuðning annarra á eig­in spýt­ur.

Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna.
Kamala Harris vara­for­seti Banda­ríkj­anna. AFP/​Erin Schaff

Fengu mín­útu fyr­ir­vara

Þenn­an sunnu­dags­morg­un voru full­trú­ar for­set­ans á sjón­varps­stöðvum að full­vissa þjóðina um að hann myndi áfram sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri. 

Klukk­an 13.45 að staðar­tíma lét hann samt aðra ráðgjafa, sem voru ekki í allra innsta hring, vita að hann myndi ekki sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri. Einni mín­útu síðar birt­ist færsla hans á Twitter þar sem hann lét heim­inn vita að hann myndi ekki sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri.

Skömmu síðar lýsti hann yfir stuðningi við Kamölu Harris.

mbl.is