Rússnesk stjórnvöld segjast ekki hafa verið upplýst um að rússneskur maður hefði verið handtekinn í París í síðustu viku, þar sem hann er grunaður um að hafa skipulagt umfangsmiklar aðgerðir til að slá setningarathöfn ólympíuleikanna úr jafnvægi.
Eins og greint var frá í gærkvöldi hefur rússneskur kokkur og fyrrverandi lögfræðingur að nafni Kírill Gjasnov verið handtekinn í París. Fjölmiðlar í Evrópu greinar frá því hafi fengið skipanir frá Kreml um að slá opnunarhátíð Ólympíuleikanna „úr jafnvægi“ í dag.
Franskar öryggisþjónustur hafa nú handtekið Grjasnov og fundið nægileg sönnunargögn til að ákæra hann fyrir njósnir, að sögn Insider, sem greina frá því að hann hafi uppljóstrað um áform sín er hann var ölvaður í Búlgaríu.
„Við höfum engar upplýsinga. Við sáum fréttirnar í fjölmiðlum [...] Okkar sendiráð hefði átt að vera upplýst um handtökuna. Við vonum að það fái upplýsingarnar,“ sagði Dmítrí Peskov, talsmaður Kremlar, á blaðamannafundi.
Sameiginleg rannsókn þýska blaðsins Der Spiegel, franska blaðsins Le Monde og rússneska fjölmiðilsins Insider bendir til þess að Grjasnov hafi sterk tengsl við yfirmenn rússnesku alríkislögreglunnar, FSB, og leyniþjónustu rússneska hersins, GRU.
„Frakkarnir munu fá opnunarhátíð sem aldrei fyrr,“ hefur Insider eftir Grjasnov úr samtali sem hann átti við yfirmann sinn í FSB fyrir tveimur mánuðum.
Í dag hefjast sumarólympíuleikarnir í París og öryggisráðstafanir hafa verið auknar umtalsvert. Tugþúsundir lögreglumanna hafa verið kallaðar út og um milljón gesta hefur verið skimuð til varúðar. Fimm þúsundum hefur manns þegar verið meinað að sækja leikana.
Þar af er fimmtungur grunaður um „afskipti að utan – við getum sagt njósnir“ að sögn Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands.
Þá hafa skemmdarverk sem unnin voru á franska lestarkerfinu í nótt sett samgöngur í hálfgert uppnám í landinu. Aflýsa hefur þurft einhverjum lestarferðum.