Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ ræddi við mbl.is við ólympíuþorpið í París þar sem hann er með umsjón yfir íslenska hópnum í frönsku höfuðborginni á meðan á Ólympíuleikunum stendur.
Vésteinn og aðrir innan ÍSÍ þurfa að glíma við ýmislegt á meðan á leikunum stendur og lenti sundmaðurinn Anton Sveinn McKee illa í því hjá skipuleggjendum þegar hann mætti í þorpið.
„Anton þurfti t.d. að bíða í fjóra tíma út af einhverju rugli í passanum hans. Það voru þeirra mistök en ekki okkar en við þurftum að bíða því þannig eru reglurnar. Hann las bók á meðan hann beið, ég kíkti til hans og sálfræðingur líka,“ sagði Vésteinn við mbl.is.