Snæfríður Sól Jórunnardóttir hafnaði í fimmtánda sæti í 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í París eftir að hafa synt í undanúrslitum greinarinnar í kvöld.
Snæfríður synti vegalengdina á 1:58,78 mínútu en Íslandsmetið sem hún setti á EM í Belgrad í vor er 1:57,85 mínúta.
Í morgun varð hún í fimmtánda sæti í undanrásunum á 1:58,32 mínútu og tryggði sér með því sæti í undanúrslitunum. Í kvöld varð hún áttunda og síðust í sínum riðli en var fyrir ofan einn keppanda í hinum riðlinum.
Þetta var fyrri grein Snæfríðar á þessum Ólympíuleikum en hún verður aftur á ferðinni á þriðjudagsmorguninn þegar hún keppir í undanrásum í 100 metra skriðsundi.