Bandaríkin fóru létt með Þýskaland, 4:1, í knattspyrnu kvenna á Ólympíuleikunum í París í kvöld.
Liðin áttust við á Vélodrome-vellinum í Marseille en Bandaríkin eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina.
Ásamt þeim í riðli eru Ástralía og Sambía. Ástralía er með þrjú stig líkt og Þýskaland en Sambía er án stiga.
Ástralía og Sambía mættust áðan í lygilegum leik sem fór 6:5 fyrir Ástralíu eftir að Sambía komst í 5:2.
Ástralía mætir Bandaríkjunum í síðasta leik riðilsins en Sambía mætir Þýskalandi.
Sophia Smith var í stóru hlutverki í liði Bandaríkjanna en hún kom liðinu yfir á 10. mínútu.
Giula Gwinn jafnaði metin fyrir Þýskaland á 22. mínútu, 1:1, en Mallory Swanson kom Bandaríkjunum aftur yfir fjórum mínútum síðar, 2:1.
Smith var síðan aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiksins og kom Bandaríkjunum í 3:1. Lynn Williams bætti síðan við fjórða marki Bandaríkjanna undir lok leiks.