Danir fylgdu eftir góðri byrjun sinni á handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í París í dag með því að sigra Egypta í annarri umferðinni, 30:27, en lentu þó í talsverðu basli í síðari hálfleiknum.
Staðan var 6:5, Dönum í hag, eftir tólf mínútna leik en þá skildu leiðir og Danir skoruðu sjö mörk í röð. Staðan var orðin 13:5 og síðan 19:9 í hálfleik.
Egyptar byrjuðu seinni hálfleik vel og höfðu minnkað muninn í fjögur mörk, 22:18, eftir tólf mínútur og síðan skildu fjögur til fimm mörk liðin að fram á lokamínúturnar. Staðan var 29:24 þegar sex mínútur voru eftir.
Egyptar minnkuðu muninn í 29:27 hálfri mínútu fyrir leikslok en Thomas Arnoldsen gulltryggði sigurinn með eina marki Dana á lokakaflanum þegar sextán sekúndur voru eftir.
Mathias Gidsel skoraði 8 mörk fyrir Dani og Simon Pytlick 7 en Omar Yahia, Seif Elderaa og Ahmed Adel gerðu fimm mörk hvor fyrir Egypta.
Danir eru þá með fjögur stig en Egyptar, sem unnu Ungverja 35:32 í fyrstu umferðinni, eru með tvö stig.