Mikil rigning í Frakklandi hefur leitt til þess að æfingum þríþrautarfólks í ánni Signu hefur verið aflýst. Áin er afar óhrein og full af bakteríum í kjölfar rigningarinnar.
Guðlaug Edda Hannesdóttir keppir fyrir Íslands hönd í þríþraut á miðvikudag en karlarnir eiga að keppa á morgun, þriðjudag. Mótshaldarar eru bjartsýnir á að keppnin muni fara fram í Signu en í ólympískri þríþraut er keppt í 1,5 km sundi, 40 km hjólreiðum og tíu km hlaupi.
Sund hefur verið bannað í Signu í áratugi vegna heilsuspillandi baktería í ánni og því urðu margir Parísarbúar hissa þegar tilkynnt var að synda ætti í ánni á Ólympíuleikunum. 1.5 milljörðum bandaríkjadala hefur verið varið í að hreinsa ánna fyrir leikana.