NBA-leikmaðurinn fyrrverandi, Luol Deng, er forseti körfuknattleikssambands Suður-Súdan. Deng hefur byggt upp landslið yngstu þjóðar heims upp á sitt einsdæmi og nú er liðið mætt á Ólympíuleikana.
Deng var öflugur leikmaður í NBA-deildinni og lék þar í fimmtán ár. Hann var hluti af mögnuðu Chicago Bulls-liði þar sem hann lék með Derrick Rose, Joachim Noah og Carlos Boozer undir stjórn Tom Thibedau en lék að auki fyrir Cleveland, Miami og Los Angeles Lakers.
Fjölskylda Deng flúði Súdan þegar Deng var barn að aldri og ólst hann upp í London. Deng lék á Ólympíuleikunum 2012 fyrir Bretland en Súdan átti ekki landslið á þeim tíma. Borgarastyrjöld geisaði í Súdan áratugum saman, allt frá sjálfstæði þjóðarinnar frá Egyptum (undir stjórn Breta) árið 1956.
Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki árið 2011, sama ár og Bulls-lið Deng tryggði sér fyrsta sætið í Austurdeild NBA-deildarinnar fyrir ofan Miami Heat, lið skipað Lebron James, Dwyane Wade og Chris Bosh.
Deng tók við sem forseti körfuboltasambandsins í Suður-Súdan 2019 og hefur síðan borgað úr eigin vasa allan kostnað við að halda úti landsliðinu. Liðið vakti gríðarlega athygli í æfingaleik fyrir mótið þegar sigurkarfa Lebron James á lokasekúndunni afstýrði óvæntum sigri Suður-Súdan á stjörnum prýddu liði Bandaríkjanna.
Suður-Súdan lagði Púertó Ríkó í fyrsta leik liðsins á Ólympíuleikunum á sunnudaginn og áhugavert verður að fylgjast með árangri liðsins.