Karlakeppni í þríþraut á Ólympíuleikunum í París hefur verið frestað vegna mengunar í ánni Signu. Keppni átti að hefjast klukkan tíu í dag en verður frestað framyfir kvennakeppnina á morgun.
Mikil óvissa hefur ríkt um sundhluta keppninnar en æfingar hafa fallið niður undanfarna tvo daga vegna óhreininda í ánni. Bannað hefur verið að synda í Signu undanfarin hundrað ár eða svo en ákveðið var að verja háum fjármunum í að hreinsa ánna fyrir Ólympíuleikana.
Miklar rigningar undanfarna daga hafa sett strik í reikninginn en eins og staðan er núna mun Guðlaug Edda Hannesdóttir keppa fyrir Íslands hönd á morgun og karlarnir í kjölfarið.