Mest rignir á Suðaustur- og Austurlandi um helgina, að sögn Veðurstofu. Hvassviðri mun sennilega vera tjaldgestum til vandræða en á heildina litið má búast við hinu „sæmilegasta veðri“ í Vestmannaeyjum.
Veðurstofan greinir frá þessu í færslu á Facebook. Útlit er fyrir að alldjúp lægð suður af landinu stjórni veðrinu um helgina. Vindur verður því austlægur og veðrið nokkuð breytilegt.
Á Suðaustur- og Austurlandi er útlit fyrir vætusamt veður, talsverð úrkoma þar um tíma síðdegis á föstudag, en á vesturhluta landsins og í innsveitum á Norðurlandi verður lengst af þurrt og milt þó eitthvað rigni af og til.
Á föstudag er útlit fyrir austankalda eða strekking í Vestmannaeyjum með vætusömu veðri.
„Það dregur úr rigningunni um kvöldið, en aðfaranótt laugardags bætir í vind og nýjustu spár gera ráð fyrir austan hvassviðri á svæðinu frá því seint um nóttina og fram yfir hádegi á laugardag,“ skrifar Veðurstofan.
Þetta hvassviðri verði bundið við syðsta hluta landsins, svæðið frá Öræfum og vestur undir Eyjafjöll, og geti valdið þeim sem gista í tjaldi talsverðum vandræðum.
„Þegar líður á daginn dregur úr vindi, og á laugardagskvöld og sunnudag er útlit fyrir sæmilegasta veður í Eyjum þó eitthvað geti rignt.“