Króatía mátti þola sitt versta tap á Ólympíuleikum frá upphafi þegar lærisveinar Dags Sigurðssonar töpuðu með ellefu mörkum, 38:27, gegn Svíum á Ólympíuleikunum í París í dag.
Í jöfnum fyrri hálfleik, þar sem Króatar voru með frumkvæðið lengi vel, náðu Svíar þriggja marka forskoti og voru 18:15 yfir í hálfleik.
Í síðari hálfleik skoruðu Svíar fimm fyrstu mörkin og reykspóluðu yfir Króatana. Andreas Palicka hrökk í gang í marki Svía fyrir aftan gríðarlega sterka vörn.
Lucas Pellas skoraði níu mörk fyrir Svía og Albin Lagergren fimm. Ivan Martinovic var atkvæðamestur Króata með átta mörk.
Krótarar verða að vinna Spán til að komast áfram en A-riðill mótsins er mjög jafn þar sem fimm lið eru með fjögur stig.